Stimpilgjald

Miðvikudaginn 28. maí 2008, kl. 19:32:45 (8368)


135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

stimpilgjald.

548. mál
[19:32]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Pétur Blöndal rakti skattalækkanir á fyrirtæki og suma einstaklinga, hátekjuskattur hefur verið felldur brott. Ég minntist á að skattleysismörkin hefðu ekki hækkað og þar af leiðandi hefðu skattar bitnað með miklu meiri þunga á almenningi í landinu. Það að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins vildi ekki hækka skattleysismörkin hefur valdið því að skuldir ríkissjóðs hafa verið greiddar af því fólki sem þurfti að bera hærri skatta vegna þess að skattleysismörkin voru ekki hækkuð í samræmi við það sem hefði átt að vera miðað við þróun á verðlagi og kaupgjaldi.

Hv. þm. Pétur Blöndal minntist á það að kakan hefði stækkað. Þá er alltaf spurningin um það, ef við skoðum hvort umsvif hins opinbera eru vaxa eða minnka, hvaða hlutfall tekið er af kökunni. Ef við skoðum það miðað við verga þjóðarframleiðslu tekur hið opinbera alltaf stærri og stærri hluta af stækkandi köku. Hvað þýðir það? Það þýðir einfaldlega aukin umsvif hins opinbera og aukna skattheimtu. Fram hjá því getum við ekki horft.

Kakan hefur stækkað, við erum sammála um það ég og hv. þm. Pétur Blöndal. En á sama tíma og kakan stækkar hækkar það hlutfall sem hið opinbera tekur af henni. Nú fer u.þ.b. helmingur af kökunni til hins opinbera og það er of mikið. Ég reikna með því að hv. þm. Pétur Blöndal sé sammála mér um það þrátt fyrir orð hans hér á undan.