Breytt fyrirkomulag á skráningu og þinglýsingu skipa

Miðvikudaginn 28. maí 2008, kl. 22:52:17 (8412)


135. löggjafarþing — 112. fundur,  28. maí 2008.

breytt fyrirkomulag á skráningu og þinglýsingu skipa.

521. mál
[22:52]
Hlusta

Frsm. samgn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á ýmsum lögum vegna breytts fyrirkomulags á skráningu og þinglýsingu skipa. Nefndin fjallaði um málið og fékk ýmsa gesti á sinn fund.

Með frumvarpinu er lagt til að tekinn verði upp samræmdur þinglýsingargagnagrunnur fyrir skip í þinglýsingarkerfi Landskrár fasteigna hjá Fasteignamati ríkisins með það að markmiði m.a. að tryggja samræmi milli aðalskipaskrár og þinglýstra heimilda um skip. Þá er einnig lagt til að í samræmi við alþjóðasamþykkt um mælingu skipa verði skip framvegis mæld í brúttótonnum í stað brúttórúmlesta.

Á fundum nefndarinnar komu fram upplýsingar um að það er til mikillar einföldunar og tímasparnaðar við framkvæmd þinglýsinga að taka upp samræmdan þinglýsingargrunn auk þess sem það eykur öryggi gagna að unnt sé að senda þau rafrænt milli embætta.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt.

Karl V. Matthíasson og Ólöf Nordal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins en að öðru leyti skrifar nefndin öll sem ein undir þetta nefndarálit.