Leikskólar

Fimmtudaginn 29. maí 2008, kl. 18:29:50 (8546)


135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[18:29]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég hafði vænst þess að hv. formaður menntamálanefndar tæki hér til máls þar sem málið var tekið til skoðunar í menntamálanefnd á milli 2. og 3. umr. Mér þykir mjög miður að nú skuli stóru frumvörpin fjögur, skólafrumvörpin, vera komin til lokaumræðu undir þeim kringumstæðum sem hér eru til staðar, búið að semja um þinglok og þar af leiðandi skertur sá réttur sem þingmenn hafa til þess að ræða um mál af þessu tagi. Þetta eru þungavigtarmál eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson orðaði það, sennilega einhver stærstu mál sem fara í gegnum Alþingi á þessum þingvetri. Þau hefðu, að mínu mati, verðskuldað rismeiri 3. umr. en þá sem hér er gefið svigrúm fyrir.

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum á þskj. 1127. Þær eru ekki nýjar af nálinni, minni hlutinn í menntamálanefnd stóð að breytingartillögum við 2. umr. sem allar voru felldar. Við höfum ákveðið að endurflytja hér tvær af þeim, við kölluðum nokkrar þeirra aftur til 3. umr. Ég flyt þær hér á þessu þingskjali.

Í fyrsta lagi er hér tillaga við 2. gr., hún varðar mannréttindamál. Ég varð fyrir vonbrigðum með að meiri hlutinn í þessum sal skyldi fella sambærilega tillögu við 2. umr. um það að mannréttindi yrðu skilgreind sem sjálfstæður þáttur í markmiðsgrein frumvarpsins. Ég ætla að gera aðra tilraun, hæstv. forseti, til þess að leggja svipaða tillögu fyrir þingheim. Ég óskaði eftir því við umræðu í nefndinni að meiri hlutinn tæki það til jákvæðrar skoðunar, bæði samfylkingarþingmenn og sjálfstæðisþingmenn, hvort ekki væri hægt að standa sameiginlega að flutningi slíkrar tillögu eða óskaði eftir stuðningi við hana. Ég er svo sem ekki bjartsýn í þeim efnum, en tillagan er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Við 2. gr. F-liður 2. mgr. orðist svo: Að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra og heilbrigðisvitund, skilning og virðingu fyrir mannréttindum, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta.“

Ég tel vel fara á því að hafa þessa setningu með þessum hætti, að inn í markmiðsgreinina komi þessi f-liður með þá viðbót að það eigi að vera eitt af meginmarkmiðum uppeldis og kennslu í leikskóla að efla skilning og virðingu fyrir mannréttindum. Mér þykir rétt að geta þessa strax á leikskólastiginu og ég flyt sambærilega tillögu varðandi grunnskólastigið.

Ég legg einnig til að nýr kafli, IV. kafli, bætist við frumvarpið. — Sem ég stend hér, hæstv. forseti, með breytingartillöguskjalið sé ég að þau hrapallegu mistök hafa orðið í skjalavinnslunni, og mér hafa yfirsést þau, að ekki fer réttur texti inn í skjalið. Orðalagi textans hafði verið breytt en einhverra hluta vegna hefur skökku skjali verið dreift þannig að ég leyfi mér að lesa textann upp af uppkasti sem ég er hér með og treysti því að það uppkast sé á þingskjali. Mitt uppkast er merkt nr. 1127, en þar er sem sagt gert ráð fyrir því að texti breytingartillögunnar, 2. tölul., sé með þessum hætti:

„Við bætist nýr kafli, IV. kafli, Leikskólabörn, með tveimur nýjum greinum, 9. og 10. gr., svohljóðandi:

„Réttur leikskólabarna. Öll börn í leikskóla eiga rétt á verkefnum sem taka mið af aldri þeirra og andlegri og líkamlegri getu í hvetjandi námsumhverfi í viðeigandi húsnæði sem tekur mið af þörfum þeirra og vellíðan barnahópsins. Börn í leikskóla eiga rétt á því að njóta bernsku sinnar og hæfileika og finna til öryggis í öllu starfi á vegum leikskólans. Leita skal sjónarmiða leikskólabarna varðandi skólaumhverfi þeirra og starf innan leikskólans.

Leikskólabörn með sérþarfir. Börn í leikskóla eiga rétt á því að komið sé til móts við námsþarfir þeirra í almennum leikskólum án aðgreiningar, án tillits til líkamlegs eða andlegs atgervis. Heyrnarlausum leikskólabörnum skal tryggt málumhverfi svo þau fái notið þeirrar menntunar og leikskilyrða sem leikskólinn hefur upp á að bjóða. Leikskólar geri móttökuáætlun vegna barna sem hafa annað móðurmál en íslensku eða nota táknmál. Tryggja skal að þessi börn og foreldrar þeirra fái aðgang að upplýsingum um leikskólastarfið og framvindu þess.“

Hæstv. forseti. Þessar tillögur legg ég fram. Í fyrsta lagi fer vel á því að með þeim yrði samræmi milli leikskólafrumvarpsins og grunnskólafrumvarpsins, þ.e. að í lögum um leikskóla yrði sjálfstæður kafli sem varðar leikskólabörnin á sama hátt og það er sjálfstæður kafli í grunnskólafrumvarpinu sem varðar rétt nemenda í grunnskólum.

Ég tel í sjálfu sér að ýmsu væri hægt að bæta við þetta og margt sé órætt í þessu máli en vegna kringumstæðna og þeirra samninga sem gerðir hafa verið um slit þinghaldsins ætla ég ekki að gera neitt annað hér en að greiða fyrir þingstörfum og læt því máli mínu lokið.