Leikskólar

Fimmtudaginn 29. maí 2008, kl. 18:36:16 (8547)


135. löggjafarþing — 113. fundur,  29. maí 2008.

leikskólar.

287. mál
[18:36]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að koma inn á þessa umræðu varðandi mannréttindahugtakið inn í markmiðsgreinar í báðum frumvörpum, þ.e. í frumvarpi til laga um grunnskóla og í frumvarpi til laga um leikskóla. Mín skoðun er sú að þetta hugtak eigi ekki heima í þessum kafla, þ.e. umfjöllunin um mannréttindin. Ég tel mjög mikilvægt að það komi inn með einum eða öðrum hætti síðar þegar tekin hefur verið um það betri umræða vegna þess að markmiðsgreinarnar báðar byggja á gildum eins og umburðarlyndi, kærleika, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og slíkum orðum sem ég tel mannréttindi byggja á en mannréttindahugtakið er lögformlegt hugtak. Því tel ég að við ættum miklu heldur að ræða það síðar meir í menntamálanefnd og þá í samstarfi við kennara að svona hugtak komi frekar inn í aðalnámskrá en í markmiðsgrein. Manngildi og gildishugtök eiga að standa ein og sér. Við eigum ekki að setja lögformleg hugtök inn í markmiðsgrein.

Virðulegi forseti. Þetta er skoðun mín og ég er tilbúin að — sú umræða átti sér ekki stað innan nefndarinnar — en ég hefði frekar viljað að við skoðuðum mannréttindin í tengslum við greinarnar um námskrárnar.