Sala áfengis og tóbaks

Mánudaginn 15. október 2007, kl. 15:53:28 (549)


135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[15:53]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það fólst ekki mikið umburðarlyndi fyrir skoðunum annarra í ræðu hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar. Við höfum svo sem heyrt það líka á öðrum vettvangi út af öðru máli hvernig hann tekur til orða um þá sem honum líkar ekki við, en það er önnur saga.

Ég vek athygli á því líka, virðulegi forseti, sem fram kemur í greinargerð með frumvarpinu og ég dreg mjög í efa að sé rétt en þar er því haldið fram að lækkað áfengisgjald leiði ekki til aukinnar áfengisneyslu. Ég spyr hv. þingmann hvar rökin séu fyrir þessari staðhæfingu sem ganga gegn reynslu Norðmanna og Finna núna nýlega, ganga gegn skýrslum og rannsóknum sem hafa verið gerðar, hafa legið frammi, hefur verið gerð grein fyrir í umræðum um þetta mál á fyrri stigum. Hvaða rök hefur hv. þingmaður fyrir því að draga í efa þessi vísindalegu gögn og halda öðru fram? Hvar eru þau rök, virðulegi forseti?

Mér finnst alvarlegt mál þegar flutningsmenn reyna að afflytja sannleikann, fela staðreyndir og halda því fram sem ég veit ekki til að sé að finna nokkur rök fyrir. Mér finnst mjög alvarlegt mál þegar þingmenn leggja það fyrir sig hér á Alþingi að reyna að draga upp mynd af veruleikanum sem er svo fjarri því sem gögn benda til sem fyrir liggja.

Ábyrgðarleysið og lýðskrumið í þessu máli er yfirgengilegt. Það er svo yfirgengilegt að þegar einn af flutningsmönnum málsins á fyrri stigum þess er orðinn heilbrigðisráðherra lýsir hann því yfir að hann muni ekki lengur beita sér fyrir því að málið nái fram að ganga enda samræmist það engan veginn stöðu hans sem heilbrigðisráðherra.