Sala áfengis og tóbaks

Mánudaginn 15. október 2007, kl. 16:46:47 (565)


135. löggjafarþing — 9. fundur,  15. okt. 2007.

sala áfengis og tóbaks.

6. mál
[16:46]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég fagna þessari umræðu, hún er búin að vera góð og skemmtileg en að sama skapi ekki alltaf full af eðlilegum röksemdafærslum. Stundum fara menn í hringi. Hér hefur komið fram að innan þingflokkanna ríki að vissu leyti mismunandi sjónarmið og það á líka við um þingflokk þann er ég starfa fyrir. Eins og hér hefur komið fram er einn þingmaður okkar á þessu máli og hefur verið á því áður og eðlilegt að hann sé á því áfram, má segja, af því að það er skoðun hans að þetta mál beri að flytja hér fram.

Ég ætla að reyna að endurspegla hér sjónarmið sem Framsóknarflokkurinn hefur farið í gegnum á flokksþingi sínu en þar var samþykkt að setja inn í stefnu flokksins eftirfarandi:

„Brýnt er að áfengi verði ekki selt í matvöruverslunum.“

Ég ætla aðeins að rökstyðja af hverju þessi niðurstaða varð. Í umræðum í flokki okkar er alveg ljóst að menn sjá kosti og galla við núverandi kerfi og kosti og galla við breytt umhverfi. Þegar menn skoða áfengisstefnu í hverju ríki fyrir sig skipta mörg atriði máli, það er ekki bara eitthvert eitt atriði sem skiptir öllu máli. Það eru mörg atriði sem sameiginlega skipta máli varðandi áfengisstefnu landanna og hvar menn vilja draga línuna í einstökum atriðum. Sú lína getur breyst og hefur verið að breytast.

Við erum sammála um það almennt að það eigi að vera áfengiskaupaaldur, þ.e. einhver lágmarksaldur, og það gildir líka um tóbak. Við erum sammála um það. Við teljum ekki að fullt frelsi eigi að ríkja í því og að hver sem er eigi að geta keypt áfengi. Við teljum að það eigi að vera ákveðin aldursmörk og það erum við með í huga til þess að sinna forvörnum, það er aðalsjónarmiðið. Það er hægt að nota sem sagt aldurstakmarkið. Við getum notað áfengisskatta og almennt er talið að því dýrara sem vínið er þeim mun ólíklegra sé að menn kaupi mikið af því og neyti þess í óhófi, það er hin almenna regla og langflestar rannsóknir sýna það. Við getum haft áhrif með sölutíma og söludögum og líka með ríkiseinkasölu. Það eru margir hlutir sem skipta máli.

Varðandi þessi mörk höfum við haft það meginsjónarmið að sterkustu rökin á bak við það að styðja það ekki að áfengi fari í verslanir séu forvarnasjónarmið. Við höfum ekki talið að sjónarmið ferðaþjónustunnar eða þægindasjónarmið eða önnur slík sjónarmið vegi þyngra. Auðvitað vega þau líka en við teljum að forvarnasjónarmiðin vegi þyngst. Það er almennt vitað að neysla á áfengi er orsakavaldur 4% allra dauðsfalla og örorku í heiminum. Samkvæmt upplýsingum Alþjóðheilbrigðismálastofnunarinnar, sem er sú alþjóðastofnun sem hefur mesta vigt varðandi heilbrigðismál í heiminum, er áfengi í 5. skaðlegasta sætinu hvað varðar áhættuþætti á heilsu. Áfengið veldur álíka miklu heilsutjóni og tóbak og í þróuðum ríkjum er áfengi talinn þriðji skaðlegasti áhættuþátturinn og veldur 9,2% alls heilsutjóns. Það er alveg sannað mál að áfengisneysla hefur mjög neikvæð áhrif á heilsu þó að margir geti neytt þess í hófi og miklu hófi. Það er hægt að færa rök fyrir því að hófleg áfengisdrykkja geti haft jákvæð áhrif á ýmsa hjarta- og æðasjúkdóma en meginniðurstaðan er að áfengi hafi neikvæð áhrif á heilsu.

Það var umræða áðan um skatta. Það kemur alveg skýrt fram í þeim rannsóknum sem hafa verið gerðar að skattar hafa áhrif. Ef varan er dýr er minna keypt af henni, skattur hefur áhrif á sölu.

Í langflestum löndum eru takmarkanir á því hver má kaupa áfengi og hver má selja. Slíkar takmarkanir byggjast á samfélagssýn og hún lýtur að öryggi og almennri heilsu. Það vil ég sérstaklega undirstrika hérna af því að sjónarmið okkar eru þau að ekki eigi að auka aðgengi meira en nú er vegna forvarnasjónarmiða. Við höfum náð árangri í forvörnum með mjög víðtæku starfi. Nýlega var gerð alþjóðleg rannsókn sem við Íslendingar tókum þátt í, hún var unnin af Lýðheilsustöð og Háskólanum á Akureyri og öll börn í 6., 8. og 10. bekk á öllu landinu voru spurð út í ákveðna áhættuhegðun og ýmis atriði er lúta að heilbrigðu líferni. Þessi rannsókn var unnin fyrir tilstuðlan Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og nefnist Health Behaviour in School-Aged Children eða HBSC-rannsóknin. Hún er mjög spennandi fyrir okkur. Vegna þess að við erum lítið land náum við að spyrja alla krakkana, við þurfum ekki að taka stikkprufur, við bara spyrjum alla krakkana í þessum árgöngum og fáum mjög skýra línu út úr rannsókninni, skýr svör.

Það kemur í ljós í rannsókninni sem var gerð árið 2006 að bæði eru reykingar að falla, þ.e. unglingarnir okkar hafa minnkað reykingar, og okkar unglingar eru líka að minnka neyslu á áfengi. Það kemur fram að hlutfall þeirra nemenda í 10. bekk sem hafa orðið drukknir um ævina hefur lækkað umtalsvert á undanförnum árum. Árið 1995 sögðust 64% nemenda í 10. bekk hafa einhvern tíma orðin drukkin en árið 2006 var þetta hlutfall komið niður í 44%. Þetta er verulegur árangur. Á þessum 12 árum hefur sá árangur náðst að í stað þess að tveir af hverjum þremur nemendum hafi orðið drukknir hefur nú innan við helmingur nemenda gert slíkt við lok grunnskóla. Það er auðvitað mjög gleðilegt. Við teljum að við eigum að undirbyggja þennan árangur með því að halda áfram auðvitað með allt þetta góða forvarnastarf og ekki taka frumkvæði að breytingum sem geta raskað þessum árangri.

Ég vil benda á að þó að við höfum náð þessum ágæta árangri með okkar unglinga er áhyggjuefni hvað neysla áfengis hefur aukist á Íslandi. Við öll settum okkur markmið hér í þinginu varðandi heilbrigðisáætlun sem var einróma samþykkt og mér finnst vert að inna 1. flutningsmann sem er staddur hér í salnum eftir því. Við samþykktum heilbrigðisáætlun, allir flokkar. Í þeirri heilbrigðisáætlun ætluðum við að ná þeim árangri að árið 2010 yrðum við komin með áfengisdrykkju niður í fimm lítra á hvern íbúa á ári, 15 ára og eldri. Við sem sagt stimpluðum þetta hér og vorum mjög ánægð með markmiðið, fimm lítra á hvern íbúa af hreinu alkóhóli, 15 ára og eldri. Markmiðið var líka að alkóhólmagnið hjá þeim sem yngri væru en 15 ára væri nánast ekkert, það var markmiðið.

Viðmiðunarárið var 1998 og þá var áfengisneysla á íbúa, 15 ára og eldri, 5,56 lítrar þannig að þetta sýndist ekki vera neitt mjög erfitt markmið, að fara úr 5,56 árið 1998 í 5 lítra árið 2010. Hvað hefur svo skeð á þessum tíma? Það er okkur til umhugsunar varðandi forvarnastarf almennt. Neyslan hefur aukist mjög verulega. Hún er í ár 7,2 lítrar á hvern 15 ára og eldri þannig að við erum á hraðri leið frá markmiðum okkar í heilbrigðisáætlun. Það væri vert að spyrja hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson hvort hann teldi ekki að þetta skipti þó nokkru máli. Við teljum a.m.k. almennt að það sé hluti af forvarnastefnu, einn af mörgum þáttum hennar, þetta aðgengi að áfengi almennt.

Ég vil líka draga fram að það er ekki hægt að rýna bara í tölur um áfengisdrykkju á mann í löndum til þess að átta sig á stöðunni. Við sjáum að í löndum þar sem aðgengi er með öðrum hætti er sums staðar drukkið meira og sums staðar minna. Það eru svo margir aðrir kúltúrþættir sem hafa áhrif. Það er t.d. mjög sláandi að á Grænlandi er áfengismagn á sérhvern 15 ára og eldri 12 lítrar árið 2005 og í Danmörku 11,3 lítrar, þetta eru mjög háar tölur. Í Finnlandi eru 10 lítrar á mann. Svo komum við þar á eftir með 7,1 lítra, sem sagt árið 2005, og svo koma Svíþjóð með 6,6 lítra og Noregur með 6,4, þannig að við innbyrðum meira en Svíar og Norðmenn. Það er svona til umhugsunar.

Hér kom fram í umræðunum áðan sjónarmið hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni sem ég held að hafi mikið til síns máls þegar hann færir rök fyrir því að þessi umræða er svolítið allt eða ekkert. Ef þetta frumvarp verður samþykkt er nokkuð ljóst að það kæmi talsverður þrýstingur á yfirvöld um að setja líka sterka áfengið í búðirnar. Ef einkasala ÁTVR yrði bara á sterkum vínum mundi verslunum ÁTVR fækka verulega úti á landi. Þetta er því svolítið spurning um allt eða ekkert, þá kæmi a.m.k. í skrefum í framhaldinu að sterka vínið yrði líka sett inn í verslanirnar.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sagði líka eitt þegar hann rökræddi þetta við hv. þm. Kjartan Ólafsson hérna áðan, sem sagt að, nei, hann vildi ekki setja sterka vínið í búðirnar. Af hverju vildi hann það ekki? Jú, það var af því að léttvín og bjór væru æskilegri neysluvara en sterkt áfengi og það má alveg færa rök fyrir því. Þá gengur hv. þingmaður út frá því að áfengisneyslan aukist væntanlega á léttvíni og bjór af því að það fer í búðirnar. Hv. þingmaður viðurkennir þá að með þessari breytingu mundi neyslan aukast af því að varan væri nær fólkinu sem er svo sem alveg skiljanlegt. Ég held að menn verði bara að viðurkenna það, eins og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson, einn flutningsmanna, var að gera með því að færa rök fyrir því að vilja bara setja léttvín og bjórinn í búðirnar en ekki sterka vínið.

Ég tel að Lýðheilsustöð hafi talsvert til síns máls þegar hún lýsir áhyggjum af þessu frumvarpi og skil mætavel að núverandi hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson skuli ekki mæla þessu máli bót þó að hann hafi verið á málinu áður. Þetta mál samræmist ekki almennt séð þeirri vinnu sem við erum að inna af hendi varðandi forvarnir.

Ég tek hins vegar undir það sem hér hefur komið fram hjá flutningsmönnum að auðvitað fyndist mörgum miklu þægilegra að geta keypt áfengið í sömu ferð í búðina og þegar maður kaupir steik og kartöflur og mjólk og hvað það er sem maður kaupir. Auðvitað er það þægilegra fyrir fjöldann, fyrir mjög marga. Stundum þarf maður samt að vega og meta þægindaaukann á móti öðrum rökum, forvarnarökunum. Að þessu leyti hafa framsóknarmenn almennt komist að þeirri niðurstöðu að forvarnirnar skipti meira máli í þessu sambandi en þægindaaukinn.

Ég tel að ÁTVR hafi staðið sig þokkalega vel. ÁTVR er með verslanir hér og þar, útibúum hefur fjölgað, afgreiðslutími er orðinn miklu vænni fyrir þá sem þurfa að nálgast vöruna og þjónustan er almennt góð. En þetta eru sérverslanir þannig að áfengið er ekki almennt fyrir augunum á t.d. unglingum og það er ekki litið á áfengi sem venjulega neysluvöru. Það má færa sterk rök fyrir því að áfengi er ekki venjuleg neysluvara vegna þeirra áhrifa sem það hefur. Þó að kannski sé tekið svolítið djúpt í árinni með að segja það spyr maður sig samt hvenær maður fari að líta á aðra vímugjafa sem algjörlega almenna venjulega neysluvöru ef maður fer að líta á áfengi sem venjulega neysluvöru. Þessi lína á milli er þess eðlis að maður á frekar að fara fetið en að rasa um ráð fram og þess vegna er heildarniðurstaða Framsóknarflokksins að styðja ekki þetta mál vegna forvarnasjónarmiða þó að maður geti vissulega tekið undir mörg rök sem hér hafa komið fram hjá einstökum þingmönnum sem eru flutningsmenn þessa máls.