Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Fimmtudaginn 18. október 2007, kl. 13:05:20 (787)


135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[13:05]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að auðvitað er það fólkið sem mestu máli skiptir í þessu sambandi. Auðvitað skiptir jafnframt miklu máli að það sé tryggt að landbúnaðurinn hafi aðgang að fjármögnun þeirra verkefna sem verið er að vinna í þágu landbúnaðarins. Það er nákvæmlega það sem verið er að gera. Það er verið að tryggja það með samningum eins og gerð er grein fyrir í athugasemdum með þessu frumvarpi þannig að það sé tryggt að atvinnugreinin sem slík eigi aðkomu að þeim rannsóknaverkefnum sem eru nauðsynleg fyrir atvinnugreinina sjálfa. Ég held að ef hv. þingmaður skoðar þetta í mikilli vinsemd og vill fjalla um þetta efnislega sjái hann þetta eins og við önnur sem höfum komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé skynsamleg ákvörðun og geti vel þjónað hagsmunum bænda.

Varðandi fjármuni við Bændur græða landið er auðvitað ljóst að það leiðir sig fram í bókhaldi Landgræðslunnar hversu stór hluti af umsvifum hennar hefur farið til verkefnisins Bændur græða landið. Ég trúi því að það hljóti að vera stór hluti, a.m.k. hlýtur það eðli málsins samkvæmt að vera svo að bændur taka þátt í uppgræðslu landsins (Forseti hringir.) og þess vegna hlýtur þetta að vera umtalsverð fjárhæð þó að það liggi ekki fyrir upp á krónur og aura í dag.