Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Fimmtudaginn 18. október 2007, kl. 13:21:42 (797)


135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[13:21]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Nú er mér að vísu runnin reiðin, [Hlátrasköll í þingsal.] en ég skal viðurkenna sem alþingismaður með svo langa setu að ég hef aldrei almennilega náð tökum á þéringum og háttalagi hér úr þingstól sem er mörgum flókið, þar á meðal mörgum nýliðanum.

Ég kann illa við það — ég verð þess var í vaxandi mæli á þessu hausti — að þegar stjórnarandstöðuþingmaður hefur talað og haldið sína málefnalegu ræðu sé það siður sumra í forsetastól að snupra þá eftir ræðuna. Ég vitnaði í einn aðila í ræðu minni, það var Bjarni Benediktsson. Ég gerði það með leyfi hæstv. forseta.

Ég kann ekki að meta 5 mínútna ræður þar sem verið er að setja ofan í við óbreytta þingmenn. Mér sárnaði það. Ég viðurkenni hér að margt er flókið í því og margt hefur svona þróast til að gera það frjálslegra. Ég ávarpa forseta, ég ávarpa hæstv. ráðherra og held mig fast við það en ég þarf kannski alltaf að vísa því til forsetans, þetta skilur hvorki þing né þjóð. Ég bið þig í guðs bænum að vera ekki að snýta þingmönnum ítarlega upp úr þessu í hvert skipti. Það er ljótur svipur á Alþingi.

Ef það er svo er best að laga þessa löggjöf þannig að hún sé þannig að menn skilji og þingmenn geti frjálsir hér flutt sitt mál án þess að forsetinn sé að snupra þá og niðurlægja eftir ræður þeirra.