Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Fimmtudaginn 18. október 2007, kl. 14:08:07 (814)


135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:08]
Hlusta

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Áður en ég tek að fjalla um það mál sem hér er til umræðu efnislega vil ég fá upplýsingar um það frá hæstv. forseta hvort þeir ráðherrar sem mest mæðir á í þessu frumvarpi ætla sér að vera viðstaddir umræðuna, þar á meðal hæstv. forsætisráðherra sem er málshefjandi og frummælandi í þessu máli, en sömuleiðis aðrir ráðherrar sem þetta mál varðar sérstaklega.

(Forseti (RR): Forsætisráðherra er í húsi, hv. þingmaður, og gengur í salinn.)

Takk fyrir þetta, frú forseti.

Ég ætla að segja örfá orð almennt um endurskoðun á Stjórnarráðinu og þeim verkefnum eða því sem hangir á því máli, þ.e. þeim bandormi sem hér hefur verið lagður fram. Rétt er að minna á að hér fór fram ágæt umræða um frumvarp til laga um breyting á lögum um Stjórnarráðið á sumarþingi eða vorþingi og átti ég meðal annars þátt í þeirri umræðu. Það er ljóst að hafa má mörg orð um hvað liggur hér að baki. Sumir hafa haldið því fram að hér hafi fyrst og fremst verið um að ræða litlar breytingar til að koma öllum ráðherrum fyrir í ráðherrastólunum eins og sagt hefur verið í þessari umræðu og tryggja að stjórnarflokkarnir gætu verið með sex ráðherra áfram hvor um sig. En jafnvel þó að þær breytingar hafi verið litlar svona á yfirborðinu þá er alveg ljóst að mjög margt fylgir þessum breytingum og það kemur býsna skýrt fram í þeim bandormi sem hér liggur fyrir að þótt breytingarnar hafi verið tiltölulega litlar þá hangir mjög margt þar á spýtunni og eru nú ekki öll kurl komin þar til grafar.

Það er líka í mínum huga þannig að margt er óljóst í þeim málatilbúnaði sem stjórnarflokkarnir hafa viðhaft í þessu máli og óvissa ríkjandi. Ég minnist þess að í umræðunum í vor komu ýmsar ábendingar fram, meðal annars í máli mínu og í máli fleiri þingmanna. Hæstv. forsætisráðherra tók því mjög jákvætt að skoða þær málefnalegu ábendingar sem fram komu þá. En mér finnst einhvern veginn eins og það hafi ekki náð með neinum hætti í gegn og veit ekki hvort það er vegna þess að menn séu einfaldlega ósammála þeim ábendingum eða hvort það hafi ekkert verið látið á það reyna, ekkert verið skoðað sérstaklega hvort einhverjar ábendingar þar væri rétt að taka til greina.

Ég vil líka velta því upp í þessari umræðu hvernig hæstv. forsætisráðherra sér fyrir sér endurskipulagningu þeirra stofnana sem óhjákvæmilega koma við sögu verði þetta frumvarp að lögum. Það er alveg ljóst að það mun hafa veruleg áhrif á starfsemi margra stofnana og það hlýtur að kalla á endurskipulagningu þeirra með einum eða öðrum hætti eins og gjarnan er sagt. Hvenær mun sú vinna fara fram og eru einhverjar áætlanir um það hvað endurskipulagning stofnana mun kosta? Ég spyr vegna þess að í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytis með þessu frumvarpi er í raun ekki gert ráð fyrir neinum viðbótarkostnaði svo heitið geti og aðeins sagt að reynt verði að halda honum í lágmarki. En ég tel við yfirferð á þessu frumvarpi að það hljóti að kalla á verulega uppstokkun og endurskipulagningu í mörgum stofnunum sem hljóta að hafa í för með sér einhvern kostnað. Þó er ekki loku fyrir það skotið að einhver sparnaður kunni að vera á móti.

Eitt vekur líka athygli mína við yfirlestur greinargerðarinnar og það er að mjög víða í greinargerðinni er komist þannig að orði að ráðherrar, til að mynda sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra annars vegar og menntamálaráðherra hins vegar, skuli gera samninga sín í milli. Gert er ráð fyrir því að ráðuneyti muni gera samninga við stofnanir til þriggja ára og þetta á við um fleiri ráðuneyti, umhverfisráðuneyti til dæmis og varðandi vatnamælingar sem hluti af Orkustofnun, þar á að gera samninga. Ég velti því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra hafi tölu á þeim samningum sem greinargerðin gerir ráð fyrir að verði gerðir á milli einstakra ráðuneyta og milli ráðuneyta og stofnana vegna þessa tilflutnings og væntanlega í mínum huga vegna þess að tilflutningurinn er ekki alltaf nógu skýr eða valdmörkin verða ekki nógu skýr á milli ráðuneyta og einstakra stofnana. En gott um þetta.

Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott, frú forseti, og ég get alveg sagt að margt í þessu frumvarpi finnst mér jákvætt. (Forsrh.: Getur það verið?) Það getur verið svo sannarlega, frú forseti, hjá forsætisráðherra, enda minnist ég þess að á sumarþingi tók hæstv. forsætisráðherra undir ýmislegt sem ég sagði í þessari umræðu ... (Forsrh.: Í þinni jómfrúrræðu.) Í minni jómfrúrræðu sem forsætisráðherra vissi reyndar ekki að væri jómfrúrræða en komst að síðar. En allt gott um það. Ég ætla að fara hér yfir nokkra þætti í því sambandi. Tíminn í 1. umr. leyfir alls ekki að farið verði yfir alla hluti en ég ætla að tína nokkra þætti út úr og ég veit að félagar mínir í mínum þingflokki aðrir munu koma inn í þessa umræðu og fjalla um aðra þætti.

Ég ætla fyrst að nefna að sveitarstjórnarmál á að færa til samgönguráðuneytis. Ég ætla að segja það sem mína skoðun, þar er ég á öndverðu máli við hv. þm. Guðna Ágústsson sem þegar hefur talað í þessu máli, að þessi tilflutningur er jákvæður. Ég hef lengi talið að samgöngumál og sveitarstjórnarmál heyri vel saman. Við sveitarstjórnarmenn höfum margsinnis sagt að forsendan fyrir því að efla sveitarstjórnarstigið og styrkja það í sessi séu ekki síst samgöngurnar. En ég ætla líka að segja við hæstv. forsætisráðherra að mér finnst vanta byggðamálin inn í þennan pakka. Ég er mjög afdráttarlaust þeirrar skoðunar að byggða- og sveitarstjórnarmál séu óaðskiljanleg. Ég veit það vegna þess að ég þekki skipan þeirra mála víða í löndunum í kringum okkur, m.a. í Evrópusambandinu og ýmsum nágrannalöndum. Þar er þessum málum mjög víða slegið saman, ekki alls staðar en mjög víða. Það er vegna þess að byggðamál, byggðaþróun, er lykilatriði fyrir sveitarfélögin. Hverjir ættu helst að huga að þróun byggðar ef ekki sveitarstjórnir? Ég sakna þess mjög að byggðamálin skuli ekki fara með í þennan pakka, sem ég hefði stutt mjög heils hugar.

Ég vil, í framhaldi af því sem ég sagði um þetta mál í vor, inna hæstv forsætisráðherra eftir því hvort hann geti tekið undir þessi sjónarmið og hvort þetta frumvarp sé þannig úr garði gert af hálfu hæstv. ríkisstjórnar, forustumanna ríkisstjórnarinnar, að þar verði engu til hnikað vegna þess að búið sé að semja um málin. Kemur til álita að menn hlusti á eða taki jákvætt í hugmyndir eða tillögur sem fram kunna að koma í meðferð Alþingis á þessu máli? Ég áskil mér að sjálfsögðu allan rétt til þess að leggja fram tillögur eða breytingatillögur ef svo vill verkast, án þess að ég hafi tekið beina afstöðu til þess.

Í öðru lagi er fjallað um að færa ferðamál til iðnaðarráðuneytisins. Ég tel það ekki góða tillögu. Ég held að fyrir ferðaþjónustuna í landinu skipti fátt jafnmiklu máli og samgöngumálin. Það vita allir sem þekkja til ferðaþjónustunnar að samgöngumálin, fólksflutningar, eru einn þýðingarmesti hlutinn í skipulagi ferðaþjónustu hér á landi. Í mínum huga er óskynsamlegt að skilja þessa þætti að. Mér er mjög til efs að ferðaþjónustan telji þetta jákvætt.

Hið sama má segja um tillöguna um flutning svokallaðra alferða frá samgönguráðherra til viðskiptaráðherra. Ég er ekki sannfærður um að það sé skynsamlegt og ég er ekki sammála þeim rökum sem koma fram í greinargerðinni þar sem því er haldið fram að hér sé fyrst og fremst um neytendavernd að ræða. Það má að sjálfsögðu færa rök fyrir því að sjónarmið um neytendavernd eigi við víðar en í lögunum um alferðir. Neytendavernd er heilmikill hluti af umræðu um matvælamálin, landbúnaðarmálin, en við erum samt ekki að tala um að færa þau til viðskiptaráðuneytis þótt þau tengist að sjálfsögðu neytendavernd og hagsmunum neytenda. Ég sé engin sérstök rök fyrir þessu og finnst þetta ekki rík rök eða sterk sem koma fram í greinargerðinni með frumvarpinu.

Stærsti liðurinn í þessu frumvarpi, eða það sem flestar breytingarnar lúta að, eru matvælamálin, sameining þeirra í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti. Það er bersýnilegt að þetta er mjög flókið mál og umfangsmikið enda kemur það fram í fjölmörgum greinum þessa frumvarps. Ég ætla strax að taka það fram að það kunna að vera mjög skiptar skoðanir um þetta og ég er ekki sannfærður um að skoðanir manna á þessu atriði skiptist eftir flokkspólitík. Ég held ekki að svo sé og það kunni að vera mismunandi áherslur um þetta atriði í öllum stjórnmálaflokkum. Mér finnst hins vegar áhugavert að velta fyrir mér áhrifum breytinganna á einstakar stofnanir sem þetta mál snertir, hver kostnaðaráhrifin verða af því.

Það er ljóst að veruleg breyting verður á eðli þess sem í dag heitir Landbúnaðarstofnun en verður matvælaeftirlit. Það er mikil grundvallarbreyting á þeirri stofnun. Þar koma ný verkefni inn. Hún verður mun umfangsmeiri og maður hlýtur að velta eftirfarandi spurningum fyrir sér: Þarf ekki að endurskoða skipulag hennar, jafnvel lagagrundvöll eða lög um hana í heild? Hvað t.d. með starfsmannamál þar? Það er sagt í greinargerðinni að það er gert ráð fyrir að fólk flytjist bara á milli. Á það t.d. við um forstöðumenn sem taka við forstöðu stofnunar sem er allt önnur heldur en þeir voru ráðnir upp á og auglýst fyrir? Maður hlýtur að velta því fyrir sér hvort breytingar verði að því leyti.

Ég ætla líka að spyrja út í heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga. Víða í greinargerðinni talað um að hlutverk heilbrigðisnefnda verði eftir sem áður það sama og það er í dag, heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Ég átta mig samt ekki á því hvort það á við um heilbrigðiseftirlitið sem stofnun sveitarfélaga, þ.e. matvælaeftirlitshlutann í heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga. Það hefur vissulega verið í umræðu á undanförnum árum að flytja matvælaeftirlit sveitarfélaga frá sveitarfélögum til ríkis. Sveitarfélögin hafa mótmælt því mjög kröftuglega og talið að það mundi kippa stoðunum undan starfsemi heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Þar að auki væri það algerlega í andstöðu við almenna stefnu sem hefur verið í samskiptum ríkis og sveitarfélaga undanfarin ár, að færa verkefni frá ríki til sveitarfélaga og styrkja sveitarstjórnarstigið. Mér leikur forvitni á að vita hvort þetta hafi verið rætt í þessu sambandi og hvort það kunni að vera í farvatninu hugmyndir af hálfu hæstv. ríkisstjórnar um að draga heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga til ríkisins.

Svo hlýt ég að spyrja að því, þótt hæstv. forsætisráðherra hafi sagt að hann væri íhaldsmaður og íhaldssamur, sérstaklega þegar kæmi að heitum ráðuneyta: Af hverju fær þetta ágæta ráðuneyti ekki bara heitið matvælaráðuneyti? Öll umfjöllunin í frumvarpinu og greinargerðinni gengur út á að þarna sé verið að samræma og samhæfa matvælamálin í landinu. Frá mínum bæjardyrum séð er margt jákvætt í því. Ég veit að t.d. innan míns flokks hafa þau sjónarmið verið uppi hjá sumum. Ég man eftir því og veit til þess að formaður flokks míns hefur haft uppi þau sjónarmið að skynsamlegt gæti verið að sameina þessi ráðuneyti undir hatti matvælaráðuneytis. Á maður þá ekki bara að kalla hlutina sínum réttu nöfnum og kalla þetta ágæta ráðuneyti matvælaráðuneyti og ráðherrann hæstv. matvælaráðherra? Það færi vel á því.

Annað atriði sem ég ætla að koma inn á í þessari fyrstu ræðu um þetta mál er efni sem ekki er í frumvarpinu sjálfu en er í greinargerð. Það vill svo til að það segir í greinargerð með frumvarpinu á blaðsíðu 16, með leyfi forseta:

„Verða nú stuttlega raktar helstu breytingar sem ákveðnar hafa verið. Fyrirkomulag heilbrigðis- og tryggingakerfisins verður stokkað upp til að gera það auðskiljanlegra og aðgengilegra almenningi. Það verður m.a. gert með því að samhæfa og gera skilvirkara hlutverk ríkisins sem kaupanda heilbrigðisþjónustu gagnvart þeim sem hana veita. Verkefnum Tryggingastofnunar ríkisins verður skipt upp og sjúkratryggingar betur afmarkaðar innan heilbrigðisráðuneytis en lífeyristryggingar og félagslegar bætur færðar til félagsmálaráðuneytis.“

Síðan kemur fram að lagabreytingar sem af þessu leiða verði lagðar fram í sérstöku frumvarpi. Ég velti því fyrir mér, því þetta er stór hluti af því sem ákveðið var hér í sumar þegar verið var að breyta lögunum um Stjórnarráðið, að þá var beinlínis gert ráð fyrir því að tryggingamálin færu yfir í félagsmálaráðuneytið sem fengi heitið félags- og tryggingaráðuneyti og síðan að heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið fengi heitið heilbrigðisráðuneyti. Það var veigamikill þáttur í því.

Þetta hlýtur að vekja upp spurningar um hvar þessi pakki er staddur. Er það svo að það sé ágreiningur um það milli stjórnarflokkanna eða milli ráðherranna sem í hlut eiga, hæstv. heilbrigðisráðherra og hæstv. félagsmálaráðherra, um hvernig verkaskiptingin raunverulega eigi að vera? Það skyldi þó aldrei vera? Hvenær mun sá pakki líta dagsins ljós, frú forseti?

Ég ætla líka að spyrja: Hefur verið rætt um málefni aldraðra sérstaklega í þessu sambandi og er gert ráð fyrir því að þau muni flytjast á milli ráðuneyta eða þeim með einhverjum hætti skipt upp? Það er mjög mikilvægt atriði. Ég get upplýst það hér að talsvert hefur verið rætt um það, m.a. á þeim vettvangi sem ég hef lengstum starfað, hvernig þessum málum verði háttað og ekki síst í tengslum við umræðuna um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga.

Ég hef farið yfir þá helstu þætti sem ég hef viljað koma á framfæri við 1. umr., frú forseti. Auðvitað er af mörgum málum að taka. Ég hef ekki imprað á hlutum eins og skógræktinni og landgræðslunni og veit að það mun gert af hálfu fulltrúa úr mínum þingflokki. Þar kunna líka að vera skiptar skoðanir. Þar kemur upp umræðan um skiptinguna á milli atvinnugreinarinnar sjálfrar, skógræktar sem atvinnugreinar annars vegar og síðan skógræktar sem umhverfismáls. Ég skil það þannig á þessu frumvarpi að þar eigi að reyna að skilja á milli. Mér finnst það að mörgu leyti skynsamlegt hvort sem það hefur nákvæmlega tekist hér eða ekki með fullnægjandi hætti. Um það má deila og hvað síðan fylgir í kjölfarið, um það geta að sjálfsögðu verið skiptar skoðanir.

Ég ætla að lokum, frú forseti, að segja það að mér finnst ófullnægjandi að allsherjarnefndin ein fjalli um þetta mál. Hér er um stórt mál að ræða sem snertir margar fagnefndir í þinginu. Mér finnst þess vegna nauðsynlegt að senda það jafnframt til skoðunar og umsagnar í einstökum fagnefndum. Ég mun leggja það formlega til við afgreiðslu málsins, þegar því verður vísað til nefndar, að það fari jafnframt til viðkomandi fagnefnda.