Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Fimmtudaginn 18. október 2007, kl. 14:26:53 (815)


135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:26]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendingar hans sem voru, líkt og í vor, margar athyglisverðar og þær koma sjálfsagt til athugunar í þingnefnd.

Varðandi það sem hv. þingmaður spurði um þá eru nokkur atriði sem ég vil víkja að. Í fyrsta lagi varðandi verkaskiptingu milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, núverandi, og væntanlegs félags- og tryggingaráðuneytis, þá kom fram í framsöguræðu minni að fram kemur sérstakt frumvarp um það mál, vonandi fljótlega eftir að kjördæmavikunni lýkur. Segja má að það sé sjálfstæður pakki þar sem um er að ræða breytingar á nokkrum lögum og það er ekki óeðlilegt að taka það mál sérstaklega í sérstökum bandormi.

Varðandi endurskipulagningu stofnana og kostnað við hann þá er ekki gert ráð fyrir því að endurskipulagning, þar sem hún þarf að fara fram, sem er ekki alls staðar, hafi í för með sér kostnað heldur þvert á móti, eins og þingmaðurinn reyndar gat um, gæti hún haft í för með sér hagræðingu og sparnað. Ég tel t.d. að það að flytja matvælaeftirlitið, sem er á höndum ríkisstofnana í dag, allt á einn stað geti ótvírætt leitt til hagræðingar.

Aðrar breytingar í frumvarpinu eru margar hverjar ekki aðrar en þær að flytja yfirráð innan Stjórnarráðsins á tilteknum málaflokkum milli ráðuneyta. Það kallar ekki á endurskipulagningu stofnana viðkomandi málaflokks eða ráðuneyta. Varðandi hugmyndina um að kalla sjávar- og landbúnaðarráðuneyti matvælaráðuneyti þá hefur hún oft heyrst en verið hafnað.