Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Fimmtudaginn 18. október 2007, kl. 14:37:17 (821)


135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:37]
Hlusta

sjávarútvegsráðherra (Einar K. Guðfinnsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem þetta frumvarp gengur út á í raun og veru eru fyrst og fremst breytingar á matvælaeftirlitshluta ríkisins, það er ekkert verið að taka á matvælaeftirlitshluta sveitarfélaganna. Ég þekki alveg þá umræðu, að margir hafa talið að skynsamlegt væri að fella þetta allt saman en það verður ekki gert nema sem hluti af samningum við sveitarfélögin. Það eru engin sérstök áform boðuð í þessu frumvarpi í þá veru að reyna að þvinga neitt slíkt fram. Það er bara hlutur sem menn ræða við sveitarfélögin ef menn telja það skynsamlegt.

Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði að þær breytingar sem við erum að gera kalla auðvitað á breytingar á starfsháttum Landbúnaðarstofnunar sem verður Matvælaeftirlitið. Það er augljóst mál að fara þarf fram heilmikil skipulagsvinna sem ég geri ráð fyrir að taki alveg fram á næsta ár að vinna úr hvernig við gerum þessa hluti. Það blandast líka inn í þetta að fram undan eru breytingar á matvælaeftirlitslöggjöfinni sem við þurfum að taka tillit til, m.a. með upptöku viðauka I. Það kallar á ákveðna uppstokkun en ég tel að það séu bara spennandi hlutir og forsendan fyrir því að við getum gert þá hluti vel sem snúa að viðauka I er einmitt sú að við erum að sameina matvælaeftirlitið í eina stofnun undir einu ráðuneyti. Það var auðvitað heilmikið tog um það hvar það ætti að vera, sérstaklega milli ráðuneyta, nú hefur fengist niðurstaða í það og ég trúi því að sú niðurstaða verði farsæl.