Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Fimmtudaginn 18. október 2007, kl. 15:15:30 (828)


135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[15:15]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég man eftir því að á fyrri árum þegar tekist var á um þessi mál þá taldi Sjálfstæðisflokkurinn að umhverfisráðuneyti ætti ekki að stofna og að umhverfisráðuneytið ætti í raun að vera til í hverju einasta ráðuneyti, það yrði skylda hvers einasta ráðuneytis að hafa að leiðarljósi verndun og eftirlit. Ég stóð að því að stofna það en ég sé ekki að rannsóknir eigi að vera þar. Þar á að vera verndun og eftirlit. Atvinnuvegurinn þarf að hafa sínar rannsóknir.

Nú nefni ég náttúruna, hv. þingmaður. Hvers vegna skyldi ræktun á hrútum og sauðfé uppi á Hesti eða kúm austur á Stóra-Ármóti eiga að fara frá landbúnaðarráðherra til umhverfisráðherra sem aldrei hugsar um kýr eða sauðkindur, hugsar ekki um það einn einasta dag og dreymir sennilega ekki á nóttunni? Hvers vegna skyldi íslenski hesturinn, sem er norður á Hólum, einni mögnuðustu vísindastöð um íslenska hestinn, eiga að fara frá landbúnaðarráðherra til menntamálaráðherra?

Ég vek athygli á því, af því að ég er róttækur í sinni og trúi á framtíðina, að íslenskur landbúnaður, sem hefur verið að gera mjög gott á síðustu árum, kraftur í atvinnuveginum á nýjan leik og bjartsýni, þurfi á vísindamönnunum sínum að halda og bið menn að skoða í fyllstu alvöru hvernig koma eigi í veg fyrir það skemmdarverk að allir þeir vísindamenn fari burt frá atvinnuveginum? Atvinnuvegurinn þarf vísindamenn. Það gerist ekkert í atvinnuveginum nema hann styðjist við vel menntað vísindalegt umhverfi og hafi það í sinni þjónustu. Mógilsá er aflið á bak við í skógræktarverkefnin í landinu. Hvers vegna á að færa það?

Ég held að hv. þingmaður sem hefur farið ágætum orðum um málið (Forseti hringir.) eigi að skoða það aðeins betur og ég held að við getum náð saman.