Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Fimmtudaginn 18. október 2007, kl. 15:47:35 (836)


135. löggjafarþing — 12. fundur,  18. okt. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[15:47]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er kannski dæmigert um hvernig aðstæður hafa breyst á þingi og víða í samfélaginu. Þetta er í þriðja skipti sem ég fer í gegnum umræðuna um að leggja núverandi stjórnsýslu búnaðarskólanna niður. Árið 1979 átti að færa þá undir menntamálaráðuneytið og reyndar leggja þá niður. Er nokkur hér inni sem telur líklegt að búnaðarskólarnir væru við lýði ef þeir hefðu verið lagðir undir menntamálaráðuneytið 1978 og 1979? Það er satt að leggja átti þá niður og færa inn í fjölbrautaskólana. Það tókst ekki vegna þess að enn var samfélagslegur vilji fyrir því að starfrækja þá, sá vilji var einnig á þingi.

Árið 1999, við breytingar á lögunum þá, stóð málið mjög tæpt. Ég hef leyft mér að vitna í að eftir fund með þáverandi forsætisráðherra, Davíð Oddssyni, var því aflýst. Hann sagði að menn yrðu að hafa rök fyrir því að gera breytingar á því sem gengið hefði vel. Þau voru ekki fyrir hendi þá og nú kemur málið í þriðja sinni fyrir. Það má vel vera, eins og hérna hefur verið ýjað að, að þetta fari í gegnum þingið. Það mundi sýna í hnotskurn þær breytingar sem eru að verða á því að dreifbýlið, landsbyggðin, hinn menningarlegi þáttur sem lýtur að landsbyggðinni, atvinnuvegir landsbyggðarinnar o.s.frv. lúta í lægra haldi. Liður í því er að taka þessi flaggskip landbúnaðarins og dreifbýlisins frá landbúnaðarráðuneyti og færa þau undir menntamálaráðuneyti. Ætlunin virðist að rústa landbúnaðarráðuneytinu. Það virðist stærsta markmið þessarar ríkisstjórnar, Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, að lama landbúnaðarráðuneytið. Mér finnst það dapurt hlutskipti, herra forseti.