Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 01. nóvember 2007, kl. 11:30:50 (1040)


135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[11:30]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála síðasta hv. ræðumanni um að fjármagn þarf með jafnréttislögunum ef það á að samþykkja þau. Það er alveg ljóst. En þetta er í fyrsta sinn sem ég man eftir að jafnréttisfrumvarpi hafi fylgt fjármunir. Þótt við höfum haft jafnréttislög í nærri 50 ár, sem hefur margoft verið breytt, þá man ég ekki eftir að þeim hafi fylgt fjármunir.

Ég nefndi, af því við vorum að athuga það í ráðuneytinu, að við sáum í hæsta lagi eina milljón í þeim frumvörpum sem hafa komið fyrir þingið. Hér er því veruleg breyting á sem sýnir að stjórnarflokkunum er alvara í þessum málum, alvara með að ætla að framfylgja ákvæðum jafnréttislaga.

Ég geri ráð fyrir því að við munum ná langt með þessum fjármunum þótt þeir hefðu þurft að vera meiri. Það er eins og í öllum málum sem við fjöllum um hér á þinginu. En ég vona að hv. þingmaður virði það við okkur og telji jákvætt að hafa sett sextíufalt meira í þetta frumvarp til að fylgja eftir framkvæmdinni en verið hefur í þeim frumvörpum sem hafa verið lögð fram. (VS: 30 milljónir.) Hér grípur hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir fram í. Það er einnig gert ráð fyrir að það komi fjármagn að því er varðar jafnréttisráðgjafana um 30–35 millj. kr. Það mun koma á fjárlögunum þegar frumvarpið hefur verið samþykkt. Það hefur verið um það fjallað í ríkisstjórn og verður gert með þeim hætti þannig að það þarf ekkert að draga það í efa.

Ég er hjartanlega sammála hv. þingmanni um að það þarf að taka fast á heimilisofbeldi sem hv. þingmaður nefndi og kynbundnu ofbeldi. Að því erum við vissulega að vinna. Við erum að vinna í samræmi við þá áætlun sem var gerð í síðustu ríkisstjórn. Þar eru settir fjármunir í að taka á því máli, t.d. á fjárlögum að því er varðar félagsmálaráðuneytið. Við erum að byrja að vinna af fullri festu að þessum málum. Ég hef skrifað öllum ráðuneytum sem eiga að fjalla (Forseti hringir.) um þetta mál og óskað eftir upplýsingum um hvaða leiðir þeir vilji fara til að ná fram þeirri áætlun sem þegar liggur fyrir í þessum efnum.