Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 01. nóvember 2007, kl. 12:37:00 (1050)


135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[12:37]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég velkist ekki í vafa um það að ákvæði 19. gr. er framför. Ég velkist ekki í neinum vafa um það en ég er þeirrar skoðunar án þess að ég fari að rökræða það frekar að tillaga nefndarinnar hafi í það minnsta verið jafngóð því þá er það alveg ljóst í ráðningarsamningi og gengur í gegnum allt ráðningarsambandið og vinnuna. Það má hins vegar eflaust deila um „núansa“ á þessu lögfræðilega en ég ætla ekki að gera það hér.

Ég ítreka að það er atvinnukúgun í gangi. Ef starfsmenn fara gegn vilja atvinnurekandans kemur bara til uppsagnar. Það er því miður svo á íslenskum vinnumarkaði að geðþóttauppsagnir eru heimilaðar og þarf ekki að tilgreina ástæður. Ég er reyndar að leggja fram frumvarp í þá veru að tilgreina þurfi ástæður.

Ég ætla líka að ítreka að heimildir Jafnréttisstofu eru veikar. Þær eru veikari en skattyfirvöld, tollyfirvöld og fjármálayfirvöld hafa. Þær ættu, eðli málsins vegna, að vera sterkari vegna þess að hér er um brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar að ræða og brot á friðhelgi einkalífsins þar sem kynbundið ofbeldi er. Það er ekkert flóknara.

Það bara liggur fyrir, að ég tel, að hér hefur verið lagt fram mikið framfarafrumvarp sem ég styð. Ég mun auðvitað og minn flokkur leggja til breytingar að því er varðar launaleyndina, heimildir Jafnréttisstofu og fleira. En ég fagna mörgum ákvæðum, svo að það sé alveg kýrskýrt.

Ég vil líka segja að ég treysti ákaflega vel vinnu Guðrúnar Erlendsdóttur, fyrrverandi hæstaréttardómara, sem leiddi störf nefndarinnar og gerði það af miklum sóma svo að því sé haldið til haga. Ég treysti því að tillaga nefndarinnar sé betri en þessi samsuða vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn hefur í raun dregið lappirnar í þessu máli.