Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 01. nóvember 2007, kl. 13:30:48 (1054)


135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[13:30]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er til umræðu nýtt frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, frumvarp sem byggt er að mestu á vinnu nefndar sem skipuð var til að endurskoða efni laga nr. 96/2000, með nokkrum breytingum sem gerðar voru nú í haust.

Heildstæð jafnréttislög voru fyrst sett 1976 og var þá mótuð fyrsta opinbera stefnan um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna en eins og allir vita er enn þá langt í land að þau markmið sem sett voru með lögunum hafi náðst þrátt fyrir reglulega endurskoðun og ótal skýrslur og rannsóknir. Ýmislegt hefur þó áunnist og nokkur stór skref hafa verið stigin svo sem varðandi lengingu fæðingarorlofs en betur má ef duga skal.

Það er óþolandi með öllu að dætur okkar, stúlkurnar, konurnar í okkar ágæta samfélagi sitji ekki við sama borð og synirnir, drengirnir og karlarnir hvað varðar rétt til starfa innan og utan heimilis og að karlar og konur skulu ekki jafnmetin til launa. Allt lagaumhverfi hvað varðar fæðingarorlof, barnabætur, skólakerfi frá leikskóla til og með háskóla, námslánakerfið og fleira þarf að vinna að því að jöfnum rétti kynjanna verði náð og aðilar vinnumarkaðarins, bæði atvinnurekendur og stéttarfélög, þurfa þar að leggja hönd á plóg.

Konurnar hafa á liðnum árum skarað fram úr í námi og lagt undir sig skólana hvað varðar lengra nám og betri námsárangur á nánast öllum skólastigum, meðal annars í sífellt fleiri deildum háskólastigsins, en þegar út á vinnumarkaðinn kemur sitja þær ekki við sama borð og karlar. Nýlegar kannanir sýna að hugmyndir stjórnenda og samfélagsins og jafnvel væntingar stúlknanna sjálfra eru ekki sambærilegar við væntingar drengjanna hvað varðar ábyrgð og laun. Þessum viðhorfum þarf að breyta. Þannig hafa líka vakið athygli kannanir meðal grunnskólanema sem eru að ljúka 10. bekk eða grunnskólanámi að stúlkurnar sem hafa skarað fram úr og stungið strákana af, t.d. í stærðfræði, telja þegar þær eru spurðar um framhaldsnám og hvernig þeim muni vegna í framhaldinu, að þær eigi fram undan erfitt nám í stærðfræðinni og eru alls ekki vissar um að þær muni ná viðunandi árangri og hafa ýmsar afsakanir og fyrirvara hvað varðar eigin getu. Hins vegar telja strákarnir, sem eru með mun slakari árangur, létt nám fram undan, telja sig geta ráðið við hvaða verkefni sem er og óttast alls ekki að takast á við ný verkefni. Þannig mótar skólinn og heimilin og samfélagið í heild með einhverjum hætti mismunandi viðhorf, mismunandi áræðni og kjark til að takast á við ný verkefni þar sem samviskusemin og mun meiri ábyrgð á meðal annars heimilisstörfum og uppeldi, setja konurnar skrefi aftar úti í atvinnulífinu. Gegn þessum kynjabundnu viðhorfum þarf að vinna um leið og breyta þarf ýmsu í okkar samkeppnisþjóðfélagi til að gera það fjölskylduvænna og jafna þátttöku kynjanna í heimilis- og uppeldisstörfum og ekki síður að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og möguleika beggja kynja til að samþætta fjölskyldu og atvinnulíf. Vonandi tekst gott samstarf ríkisins, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins um að ná betri árangri hvað þetta varðar.

Enn er umtalsverð kynjaskipting hvað varðar störf á vinnumarkaði og því miður endurspeglast launakjör um of af þeirri skiptingu þar sem kjör hefðbundinna kvennastétta eru almennt lakari en kjör í karlastéttum. Þessu til viðbótar er aðgengi að aukagreiðslum sýnilega körlunum í hag. Það á því ekki að koma á óvart að í þessu frumvarpi um endurskoðun á lögum um jafna aðstöðu kvenna og karla er hert upp á ýmsum þáttum, reynt að gefa skýrari skilaboð út í samfélagið um það markmið að jafna stöðu kynjanna í samfélaginu. Þessi skilaboð eru einnig skýr í stefnumótun ríkisstjórnarinnar þar sem jafnrétti í víðtækustu merkingu skal haft að leiðarljósi í allri stefnumótun ríkisstjórnarinnar, jafnrétti óháð kyni, búsetu, uppruna og félagslegri stöðu. Þá er fyrirheit í stefnumótuninni um bætta stöðu barnafjölskyldna og m.a. boðuð lenging á fæðingarorlofi. Það er mikilvægt réttlætismál að við náum að jafna stöðu kynjanna og bráðnauðsynlegt að ná betri árangri til að nýta þann mannauð sem býr í hópi karla og kvenna.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er sérstakur kafli um jafnrétti í reynd þar sem fyrirheit eru um að minnka óútskýrðan launamun hjá ríkinu, fyrirheit um að jafna stöðu karla og kvenna í nefndum og stjórnunarstöðum á vegum ríkisins og það er klárlega ætlunin að endurmeta sérstaklega kjör kvenna hjá hinu opinbera.

Einn liður í baráttunni fyrir launajafnrétti kynjanna er yfirlýsing í stefnuskrá ríkisstjórnarinnar, ákvæði sem er uppfyllt í þessu frumvarpi að samningsbundin launaleynd er ekki lengur heimil. Það skal vera klár réttur starfsmanns að skýra frá launum sínum ef hann kýs svo. Deilt hefur verið um hvort slíkt ákvæði hefur neikvæð eða jákvæð áhrif fyrir baráttunni fyrir jöfnun launa og sumir telja að umræða um laun á kaffistofu muni hafa neikvæð áhrif á starfsumhverfi. Sjálfur, m.a. af fenginni reynslu af mínum stjórnunarstörfum, tel ég að gegnsæ opin launaumræða sé ávallt af hinu góða. Ákveði fyrirtæki að mismuna starfsmönnum í sömu störfum í launum verða stjórnendur að hafa skýrar línur hvað ræður slíkri mismunun hvort sem það er þekking, reynsla eða færni og skilaboðin eiga að vera skýr, það er óheimilt undir öllum kringumstæðum að slíkur launamunur eigi rætur að rekja til kynferðis. Vonandi nást góð fyrirheit ríkisstjórnarinnar um að minnka launamun hjá ríkinu til almenna vinnumarkaðarins einnig og hafa áhrif og verða hvetjandi til þess að vinnumarkaðurinn sjái að sér og reyni að uppræta þann launamun sem þar er einnig.

Sama gildir um stjórn stofnana, hlutafélaga og fyrirtækja. Ég hef raunar tjáð mig um það að ef ekki tekst að jafna þar stöðu kynjanna þá komi vel til álita að setja lög sem kveða á um með hvaða hætti skal kippa í stjórnartaumana hvað varðar kynferði stjórnarmanna. Það er nefnilega mjög mikilvægt að skilaboðin séu klár: það á að nýta mannauðinn í heild óháð kynjum og tryggja að hæfileikar og menntun ráði og nýtist sem best í samfélaginu.

Til að vinna sérstaklega að því að eyða launamun kynjanna hefur hæstv. félagsmálaráðherra Jóhanna Sigurðardóttir þegar skipað tvo starfshópa til að vinna að þessu markmiði. Öðrum starfshópnum er ætlað það hlutverk að leita leiða til að eyða óútskýrðum launamun kynjanna á almennum vinnumarkaði og að jafna stöðu kvenna og karla í nefndum og í stjórnum stofnana og fyrirtækja. Hinum starfshópnum eða ráðgjafarhópnum er ætlað að vera til ráðgjafar um framvindu aðgerða gegn kynbundnum launamun og að vinna eða láta vinna mat á árangri aðgerða, að fylgjast sem sagt með því hvernig framkvæmdin gengur.

Eins og ég nefndi áðan eru í frumvarpinu skerptar þær áherslur og gefin mun skýrari fyrirheit eða tilætlanir út í samfélagið um að jafna stöðu kynjanna. Ég held að það sé kannski það mikilvægasta sem við erum að leggja fram hér með frumvarpinu, þ.e. að ríkisvaldið, þingið og ríkisvaldið gefi þau fyrirmæli til samfélagsins að við munum ekki sætta okkur við það misrétti sem viðgengst í samfélaginu. Menn geta rætt um leiðir og menn geta rætt um hvort eigi að fara jákvæðar leiðir eða eitthvað annað en ég held að það sé með öllu ljóst að grípa þarf til skarpari aðgerða, herða upp á þeim lögum og reglum sem hafa verið í gildi og beita þá viðurlögum til að ná þeim árangri sem við ætlum okkur en jafnframt getum við að sjálfsögðu skoðað hvort vottun sé fær leið eða aðrar aðferðir eins og í sambandi við fræðslu og annað sem er auðvitað mikilvægt samhliða. Frumvarpið gerir sem sagt ráð fyrir því að viðurlög fylgi ef menn brjóta þessi lög, mun skýrari en áður hafa verið, og heimildir til sektarákvæða og er það ný tilraun til að ná árangri í sambandi við jafnréttismálið. Þannig fær Jafnréttisstofa skýrari eftirlitsheimildir og henni er gert heimilt að beita dagsektum ef lögin eru brotin. Þá fær kærunefnd jafnréttismála skýrara hlutverk og verða úrskurðir nefndarinnar bindandi en áður var slíkur úrskurður aðeins álit. Þetta gefur nefndinni meiri slagkraft og hægt verður að gefa skýrari skilaboð til samfélagsins um að ætlast sé til að farið sé að þessum lögum eins og öðrum lögum í landinu. Gerð er skýrari krafa til fyrirtækja sem hafa fleiri starfsmenn en 25 á launaskrá um gerð jafnréttisáætlunar sem vera má hluti af starfsmannastefnu fyrirtækjanna. Það hefur komið fram í umræðum nú þegar að menn hafa vangaveltur um þann fjölda en þetta viðmið við 25 starfsmenn hefur verið í eldri lögum og ég sé enga ástæðu til að breyta þeirri tölu. Menn mega þó ekki líta á jafnréttisáætlanir sem einhverjar skýrslugerðir eða heilu bækurnar heldur er þarna verið að krefja fyrirtæki um að hafa skýra stefnu um hvernig skuli unnið að jafnrétti og ég held að þó að einungis 25 manns starfi hjá í fyrirtækinu þá sé nauðsynlegt að fjalla um og taka afstöðu til hvernig fyrirtækið ætli að stuðla að jafnrétti og uppfyllingu laganna.

Það hefur líka verið rætt hvort eigi að hafa þetta tímabundið þannig að þetta nái einungis til opinberra fyrirtækja en sjálfur hef ég lagst gegn því og hef raunar ávallt gagnrýnt þegar menn fjalla alltaf um opinbera geirann í atvinnulífinu sem einhvern allt annan hlut en einkageirann. Ef siðalögmál eða grundvallarviðhorf sem við teljum að almennt eigi að fylgja í samfélaginu eru til umræðu þá finnst mér að fylgja eigi því eftir gagnvart öllum fyrirtækjum.

Í þessu frumvarpi er líka breyting á jafnréttisráði og það er fækkað í ráðinu en jafnframt er tilgreint hvaða fulltrúar eiga þarna að eiga aðild og það er rétt sem hefur komið fram fyrr í umræðunni að það eru fyrst og fremst kvennasamtök sem nefnd eru. Það má auðvitað hugsa sér að bæta við ef við höfum sambærileg karlasamtök eins og Félag ábyrgra feðra eða önnur, að þau eigi fulltrúa í Jafnréttisráði en væntanlega munum við fjalla um það í félagsmálanefnd þegar þar að kemur.

Einn af mikilvægum þáttum sem við erum að uppfylla með þessu frumvarpi, og hefur svo sem verið áður en á að fylgja betur eftir, er að hindra opinberar stofnanir og stærri fyrirtæki á almennum markaði í því að þau geti ráðið starfsfólk að almennum geðþótta og mismunað eftir kyni og eins varðandi auglýsingar og þá er hægt að krefja fyrirtæki eða stofnanir um rökstuðning fyrir ráðningu umsækjenda af gagnstæðu kyni. Þetta leiðir vonandi til þess að atvinnurekendur og stjórnendur vandi sig betur við umfjöllun um umsóknir og meti að verðleikum menntun, starfsreynslu, sérþekkingu og aðra hæfileika sem nýtast í starfi, óháð kyni umsækjenda.

Þá er í frumvarpinu ákvæði um jafnréttisfulltrúa ráðuneyta sem mætti kannski skilja þannig að það ætti að setja jafnréttisfulltrúa í hvert ráðuneyti og það er í rauninni gert en fleiri en eitt ráðuneyti geta sameinast um jafnréttisfulltrúa. Með því ákvæði er einmitt verið að gefa mjög skýr skilaboð um að það verði veitt eftirlit með framkvæmd laganna í Stjórnarráðinu og með aðkomu að þeim stofnunum sem ráðuneytin hafa undir sínum verndarvæng. Sömuleiðis er þarna ákvæði um jafnréttisþing þar sem á tveggja ára fresti verður fjallað um stöðuna í jafnréttismálum og reynt var að kalla til alla þá aðila sem eru að vinna að þeim málaflokki og þar mun félagsmálaráðherra væntanlega leggja fram skýrslu um stöðu og þróun jafnréttismála sem og aðrir aðilar sem vinna að þeirri baráttu. Það þarf að gera alla jafnréttisumræðuna opnari, tryggja aðkomu karla að umræðunni og aðkomu þeirra og ábyrgð á jafnréttismálum en kynbræður mínir hafa gjarnan haldið sig til hlés, talið erfitt að koma inn á þennan vettvang þar sem lengi vel var litið á jafnréttisbaráttuna sem baráttu fyrir bættri stöðu kvenna gegn körlum en þar er auðvitað um grundvallarmisskilning að ræða. Þetta er barátta sem við verðum að heyja sameiginlega, öllum til hagsbóta.

Það má svo sem gera grín að því að þetta frumvarp fer til nefndar sem skipuð er átta karlmönnum og einni konu, þ.e. félagsmálanefndar, það hefur æxlast þannig að karlmenn hafa lagt undir sig alla nefndina og ég ætla að vona að það tryggi ekki síður árangur af starfinu og umfjöllun um nefndarálitið í félagsmálanefnd. Ég tel þær breytingar sem gerðar hafa verið frá fyrri jafnréttislögum til bóta og tilraunarinnar virði að sjá hvort skarpara aðhald og eftirlit og viðurlög gegn brotum leiði til betri árangurs. Árangurinn verður síðan að meta jafnóðum og taka þá frekari skref eða breyta lögunum til að tryggja þau markmið sem lögin hafa og hafa haft síðustu áratugi. Ég tel mikilvægt að ekki sé gerður greinarmunur á opinberum fyrirtækjum og almennum fyrirtækjum eins og ég sagði áður. Siðareglur og almenn landslög, hvort sem um er að ræða jafnrétti kynjanna, jafnan rétt einstaklinga óháð þjóðerni, aldri og búsetu eiga að ná jafnt til einkafyrirtækja og opinberra fyrirtækja. Sem betur fer eru sífellt fleiri stjórnendur stofnana og fyrirtækja að gera sér grein fyrir mikilvægi virkrar starfsmannastefnu þar sem samþættir eru hagsmunir fjölskyldunnar, barnauppeldis og skólagöngu og atvinnu foreldranna, vitandi að slíkt skilar betri afkomu fyrir fyrirtækin og samfélagið í heild. Hugtök eins og mannauður hefur rutt sér til rúms og þar kemur inn menntun og heilsa starfsmanna, reynsla og persónuleg, félagsleg og starfsleg færni. Allt þetta skiptir máli þegar verið er að meta mannauðinn í fyrirtækjunum og það er okkar að nýta þennan mannauð sem allra best óháð kyni. Jafn réttur fólks til framgangs og launa á að vera óháður kynferði.

Ég vænti þess að jafnréttisfrumvarpið fái vandaða umfjöllun og þær breytingar sem gerðar verði í umfjöllun þingsins verði til að bæta það enn frekar.