Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 01. nóvember 2007, kl. 14:00:40 (1056)


135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:00]
Hlusta

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að fagna frumvarpi hæstv. félagsmálaráðherra. Ég tel að þar sé komið fram frumvarp sem nokkuð þverpólitísk samstaða geti náðst um. Við höfum heyrt í umræðunum að áherslur eru að einhverju leyti ólíkar en þó held ég að þarna sé kominn grunnur sem allir ættu að geta sameinast um að vinna út frá.

Við sem sitjum á Alþingi erum öll sammála um að varla ætti að þurfa að ræða um jafnrétti, svo sjálfsagt ætti það að vera. Ég er þá ekki einungis að tala um jafnrétti á milli kynja heldur jafnrétti á öllum sviðum þjóðfélagsins, að við stöndum öll jafnfætis í gegnum lífshlaup okkar. Ég er að tala um jafnrétti til náms, jafnrétti til starfs og svo mætti lengi telja.

Við höfum í grundvallaratriðum reynt að byggja upp samfélag þar sem tækifæri eru jöfn fyrir alla og það hefur leitt til þess að íslenskt þjóðfélag hefur verið að breytast mjög mikið á undanförnum árum. Jafnvel þótt gera megi mun betur þegar kemur að jafnrétti kynjanna held ég að okkur hafi miðað vel áfram á mjög mörgum sviðum.

Til dæmis má greina breytingar þegar horft er til náms með tilliti til kynjahlutfalls. Hvar sem við drepum niður fæti, á framhaldsskólastigi eða á háskólastigi, hafa skref til jafnræðis verið stigin mjög víða. Án þess að maður hafi gert hávísindalega úttekt á því má þó segja að konum hafi frekar verið að fjölga í karlagreinum, sem kallaðar voru, en kannski mætti karlmönnum fjölga í svokölluðum kvennagreinum.

En við þekkjum það að í karlastéttum, lögfræðingastétt og læknastétt, jafnvel í verkfræðingastétt, eru konur í einhverjum tilvikum komnar í meiri hluta, eitthvað misjafnt reyndar á milli skóla. Sú staðreynd sýnir þá breytingu sem hefur orðið að þessu leyti. Hins vegar hafa ákveðnir þættir staðið út undan og það er ólíðandi. Má þar nefna hinn kynbundna launamun, en það er eitt af þeim atriðum sem frumvarpið tekur nokkuð vel á. Kynbundinn launamunur virðist vera viðvarandi og þrátt fyrir að allir séu sammála um að hann gangi ekki upp, hvort sem það eru opinberir aðilar eða atvinnurekendur á einkamarkaði, er eins og árangur náist ekki. Það er óþolandi.

Það er augljóst mál að ef aðilar af ólíku kyni vinna sömu störf eiga þeir að fá sömu laun. Á þessu er náttúrlega tekið í frumvarpinu og taka 19. gr. og 25 gr., ef ég man rétt, sérstaklega á kynbundnum launamun. Ég held að það sé forgangsverkefni sem við þurfum að ganga í. Það getur aldrei gengið að slíkur launamunur sé til staðar.

Það er hins vegar alltaf spurning hversu langt á að ganga í boðum og bönnum eins og einstakir ræðumenn hafa komið inn á og hvað verður til að auka jafnrétti í raun. Hæstv. ráðherra hefur bent á að hér hafi ekki verið mikið um að fyrirtækjum hafi verið refsað fyrir að fylgja jafnrétti ekki eftir í verki og þegar úrskurðir hafi komið hafi fyrirtækin einfaldlega ekki tekið mark á þeim, og það er miður. Að því leyti má segja að það sé tilraunarinnar virði að koma upp ákvæði sem refsar fyrirtækjum fyrir að bæta ekki úr málum sínum, tilgangurinn er ekki bara að þetta séu orð á blaði heldur að fyrirtækin bæti úr sínum málum.

Mér finnst jafnréttisvottun líka mjög athyglisverð hugmynd. Ég held að stærri fyrirtæki, fyrirtæki sem hafa öfluga innviði, fyrirtæki sem ráða yfir það miklu fjármagni í yfirbyggingu, fari einfaldlega í slík verkefni til að gera vinnustaðinn sinn eftirsóknarverðan. Vinnustaður með slíka vottun yrði að mínu mati skör hærri — ég er ekki endilega að segja að því eigi að koma inn í þennan lagabálk, en löggjafinn og þá hæstv. félagsmálaráðherra ættu að huga að því hvernig standa mætti að slíkri vottun.

Ég las um ákveðna rannsókn — það skiptir kannski ekki máli í hvaða blaði en ég held það hafi verið í Economist í febrúar 2005 — þar sem verið var að fjalla um stöðu kvenna í ýmsum löndum. Þegar kom að því að skoða í hvaða landi flestar konur væru í stjórnunarstöðum og í stjórnum fyrirtækja voru Bandaríkin í fyrsta sæti eða að minnsta kosti í einum af efstu sætunum. Mér vannst ekki tími til að grafa þessa grein upp en ég held ég geti fullyrt að Bandaríkin hafi verið í fyrsta sæti.

Það hefði maður kannski ekki ímyndað sér fyrir fram. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það er í bandarísku þjóðfélagi sem verður til þess að konur eru þar í hærra hlutfalli í stjórnunarstöðum og í stjórnum fyrirtækja en annars staðar. En hitt veit ég þó að mörg lönd, t.d. Norðurlöndin, hafa sérstaka löggjöf um hlutföll kynja í stjórnum og stjórnunarstöðum, nefndum og öðru slíku. Það hefur kannski ekki alltaf gengið eftir sem skyldi þrátt fyrir boð og bönn og sést af því að þetta er allt vandmeðfarið.

Í Þýskalandi er mjög mikil umbun hjá foreldrum barna og mér skilst, án þess að ég hafi lagst yfir það, að það snúi ekki síst að konum. Í flestum tilfellum er konum umbunað fyrir að vera lengi inni á heimilinu eftir að fólk eignast barn. Það skilar sér svo aftur í því að konurnar eiga erfitt með að fara út á vinnumarkaðinn aftur. Þessu er öfugt farið í Bandaríkjunum. Það er svo sem ekki til fyrirmyndar en það gæti verið ein skýringin. En meðalhófið hlýtur jú að vera best í þessu eins og öðru. Þetta sýnir að það er líka hægt að ganga of langt í því að setja lög og reglur um alla skapaða hluti.

Ég legg áherslu á að ég styð frumvarpið í heild sinni þó eðlilegt sé að félagsmálanefnd fari yfir einstaka þætti í meðförum sínum. Varðandi það að fyrirtæki með 25 starfsmenn þurfi að koma sér upp sérstakri jafnréttisáætlun spyr maður sig náttúrlega hvað felist í slíkri áætlun. Ég held í sjálfu sér að það verði ekkert stórmál fyrir fyrirtækin. Það gæti jafnvel endað með því að samtök sem þessi fyrirtæki eiga aðild að útbúi eitthvert form sem menn fylla út í, að tiltölulega auðvelt verði að leysa þetta en þetta verði þó til þess að eigendur fyrirtækja hugsi upp að einhverju marki um þessa hluti.

En spurningin er hvort þetta muni ná tilgangi sínum. Ég er ekki endilega viss um það og ég er sammála því sem kom fram hjá hv. þm. Ragnheiði Árnadóttur, burt séð frá því hvort þetta eiga að vera 25 manna fyrirtæki, 50 eða 100 manna, þá held ég að þetta geti verið dálítið sérstakt verkefni fyrir t.d. mann sem rekur blikksmiðju með 25 starfsmenn — mann sem er vanur að vera niðri á gólfinu, sjá um að borga út og vera úti á mörkinni, inni í byggingum og hingað og þangað. Það verður svolítið mál fyrir hann að setjast niður og setja fram slíka áætlun. Það er líka spurning um hvaða bolmagn fyrirtækið hefur í slíkt ef vel á að vera. Ég veit að fyrirtækið leysir þetta. Það skilar af sér áætluninni en það er auðvitað fyrst og fremst árangurinn sem við viljum sjá.

Þá er það spurningin um bann við mismunun við ráðningu í starf. Hvað felur það nákvæmlega í sér? Snýr sú mismunun að kyni ef annað kynið er ráðið en ekki hitt? Þetta snýr ekki að annars konar mismunun við ráðningu. Ef við tökum lítil fyrirtæki sem dæmi getur það nú einfaldlega verið þannig að atvinnurekandi hefur ákveðna tilfinningu gagnvart manneskjunni burtséð frá kyni eða prófgráðum og slíku. Það getur verið erfitt að rökstyðja það. Ég hef sjálfur staðið í þeim sporum að mér líkar við einhverja manneskju en ekki aðra óháð kyni. Og þarf þá að rökstyðja það? Ef tveir umsækjendur eru af sama kyni þarf ekki að rökstyðja ráðningu annars en ef umsækjendur eru karl og kona þarf að rökstyðja það val. Þetta er í það minnsta umhugsunarvert.

Hvað úrskurðarnefndir varðar hafði ég nú heyrt að þróunin væri frekar í þá átt í stjórnsýslunni að draga úr slíkum nefndum. Það var mjög í tísku í ráðuneytum fyrir nokkrum árum að koma slíkum úrskurðum út fyrir ráðuneytin. Hins vegar tel ég að í þessu tilviki sé rétt að hafa úrskurðarnefnd og að úrskurðirnir séu bindandi. Ég held að það sé forsenda þess að þetta bíti. En ef menn telja á sér brotið hafa þeir að sjálfsögðu — sagði ég menn, menn og konur, konur eru líka menn — alltaf þá leið að reka málið fyrir dómstólum.

Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég styð frumvarpið í heild sinni en að sjálfsögðu mun félagsmálanefnd fara í einstaka þætti þess og kannski taka á einhverjum þeirra. En frumvarpið er að minnsta kosti grunnur að lagabálki sem við hljótum að geta náð þverpólitískri samstöðu um.