Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 01. nóvember 2007, kl. 14:42:08 (1060)


135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:42]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Samlíkingin við trúarbrögð og siðareglur er ágæt. Trúarbrögð eru með refsingar, hreinsunareld, helvíti o.s.frv. en siðareglur ekki. Siðareglur segja að menn eigi að fara að góðum siðum, það gagnist þeim best. Ég held að það sé að mörgu leyti skynsamlegra að fara að siðareglum.

Varðandi hvaða lausnir ég sé finnst mér dálítið undarlegt að hv. þingmaður skuli ekki hafa heyrt það. Ég talaði um vottun fyrirtækja, að opinber aðili gefi vottorð um að ákveðið fyrirtæki fylgi jafnréttisstefnu í reynd eins og opinberir aðilar gefa vottorð um að einhver maður kunni verkfræði eða læknisfræði eða eitthvað álíka. Þegar ég veit að fyrirtæki framfylgir jafnrétti að öllu leyti, bæði milli karla og milli kvenna og milli karls og konu, mundi ég frekar sækja um vinnu hjá því fyrirtæki en öðru sem ekki treystir sér til að sækja um slíka vottun vegna þess að það framfylgir ekki jafnrétti milli fólks.

Ég benti því á þessa leið og það er tiltölulega auðvelt að setja hana inn með lagafrumvarpinu sem hér liggur fyrir. Það er lítið mál að hætta við refsingar en hvetja í staðinn fyrirtæki til þess að vinna með jafnréttissinnuðum hætti.