Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 01. nóvember 2007, kl. 14:47:35 (1063)


135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:47]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það gleður mig að við eigum sameiginlegt markmið, ég og hv. þm. Pétur H. Blöndal, um að ná árangri í jafnréttismálum. Við ættum að geta sameinast um að gefa skýr skilaboð út í samfélagið. Málið snýst m.a. um að breyta viðhorfum og slást við fordóma og breyta því sem hér þarf að breyta.

Við getum verið sammála um að það ætti að vera hagur allra að ráða hæfasta fólkið þó við horfum því miður upp á að persónuleg tengsl, frændsemi og pólitík ráði víða, ekki síður í einkafyrirtækjum en opinberum fyrirtækjum, þegar fólk er ráðið.

Það sem ég skil ekki og mig langar að spyrja hv. þm. Pétur H. Blöndal um, er: Hver er munurinn á vottun og jafnréttisáætlun? Hvað munum við ætlast til að sé sett inn í jafnréttisáætlun? Það eru nákvæmlega þau atriði sem við mundum líta á í sambandi við vottun á fyrirtækjum, þ.e. hvaða þætti eigi að skoða hjá starfsmönnum, hvaða þætti í sambandi við fjölskyldumál og annað munum við meta til að gefa viðkomandi fyrirtækjum vottun? Ef við getum sameinast um slíka greiningu þá getum við ekki síður beitt henni í gegnum jafnréttisáætlanir og Jafnréttisstofu þannig að fyrirtækin geti unnið að jafnréttisáætlun. Fyrirtækin gætu greint frá aðferðum sínum og auglýst að þau hefðu skilað jafnréttisáætlun og staðið sig gagnvart þessum nýju lögum. Við þetta mundum við spara 70 millj. kr., ef ég hef skilið rétt hvað það kostar að fara af stað með vottunina.

En mér finnst að hv. þm. Pétur H. Blöndal skuldi okkur að gera grein fyrir muninum á þessu. Ég sé ekki muninn á því að fyrirtæki geri jafnréttisáætlun eða hljóti fyrirmæli utan frá um hvernig það eigi að uppfylla opinber skilyrði til að fá vottun.