Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 01. nóvember 2007, kl. 14:50:50 (1065)


135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[14:50]
Hlusta

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki af hverju hv. þm. Pétur H. Blöndal gefur sér að frumvarpið boði barsmíðar og þvinganir umfram það ef um vottun væri að ræða. Mig langar líka til að spyrja hv. þingmann: Hvernig stendur á því að við erum ekki komin lengra? Hvernig stendur á því að fyrirtækin hafa ekki gengið lengra í þessu? Ég trúi ekki þeirri skýringu sem kom fram, að skort hefði á því að barist væri fyrir hámarksarðsemi. Það getur verið hluti af skýringunni. Ég get almennt tekið undir það að sjálfur hefði ég kunnað betur við það að lokka fólk til að gera hlutina og leita samstarfs en að þvinga það. En mér finnst þessu rangt stillt upp þegar þetta er sett fram með þessum hætti.

Ég held að við höfum verið svo lengi í sama hjólfarinu að tími sé kominn til að gefa skýrari skilaboð til fyrirtækja um þá tilætlun sem við höfum um jafnrétti í þjóðfélaginu. Þar erum við sammála. Ég held að það væri, eins og ég sagði í ræðu minni áðan, tilraunarinnar virði að gá hvort okkur tekst að fylgja þessu betur eftir. Ég skal fúslega koma að því að við búum til vottunarkerfi ef það má verða til að flýta þessu. En ég held að fyrst eigum við einmitt að skilgreina hvað það er hjá fyrirtækjunum sem við viljum breyta. Það getum við gert í opinbera kerfinu, hvort sem það heitir Jafnréttisstofa eða eitthvað annað. Við þurfum ekki til þess utanaðkomandi vottunarfyrirtæki með ærnum tilkostnaði, þótt við gætum að einhverju leyti komið þeim kostnaði yfir á fyrirtæki sem hv. þingmaður ber annars mjög fyrir brjósti. Mig vantar betri skýringar á því: Af hverju gefur hann sér að þetta séu þvingunarúrræði, af því að það er Jafnréttisstofa eða jafnréttisráð eða úrskurðarnefndir, en annars ekki? Erum við að hverfa frá jafnréttislögunum með því að þora ekki að beita viðurlögum?