Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 01. nóvember 2007, kl. 15:13:25 (1068)


135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:13]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég sá mig knúna til þess að koma hérna upp þegar ég var að hlýða á ræðu hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar vegna þess að í lokaorðum hans kristallaðist sýn hans á þessi mál, þ.e. að hann lítur svo á að hér sé verið að ræða jafnréttismálin í of þröngu samhengi og þegar menn ræða jafnréttislöggjöf þá þurfi að horfa til fleiri þátta, eins og hann orðaði það. Hann nefndi þar vinnumarkaðinn og fleira.

Til þess að eyða öllum misskilningi þá langar mig að benda hv. þingmanni á það að við erum ekki að ræða hér almenna jafnréttislöggjöf. Við þurfum t.d. að ræða málefni útlendinga, við þurfum að ræða málefni fólks sem hallar á. En hér er, eins og heiti frumvarpsins gefur til kynna, verið að ræða frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Hér er því tekið sértækt á þeim málum.

Ég er hins vegar alveg sammála hv. þingmanni hvað það varðar að vissulega má skoða vinnumarkaðinn og við þurfum að fara að skoða þann launamun sem þar er orðinn og þann kjaramun sem þar er orðinn. En þetta mál snýst bara ekki um það.

Ég verð að segja alveg eins og er að ég er ekki sammála því og ekki sátt við það að við förum að drepa þessu mikilvæga máli á dreif, þeim mun sem hefur alltaf verið á stöðu karla og kvenna í íslensku samfélagi. Þessi munur er kerfisbundinn og menningarlegur, bundinn í menningu okkar og allan kúltúr og vitund og það er það sem við erum að taka á og eigum að taka á sértækt í því frumvarpi sem hér liggur fyrir. Ég vil því biðja menn að drepa ekki þessu góða máli á dreif með því að fara að líta á jafnréttismálin í stóru samhengi vegna þess að það er margra, margra ára vinna og við munum aldrei ná utan um alla þá hópa sem við þurfum til þess að geta (Forseti hringir.) klárað þetta góða mál í tíma.