Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 01. nóvember 2007, kl. 15:17:27 (1070)


135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:17]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú sem hér stendur sagði aldrei að verið væri að drepa jafnréttismálunum á dreif heldur væri verið að drepa á dreif þeirri umræðu sem hér á sér stað og fellur undir jafnréttismál, þ.e. umræðu um frumvarp til laga um að jafna stöðu og rétt kvenna og karla. Í frumvarpinu er verið að taka á þessum hópum og þetta eru engir smáhópar. Þetta er öll þjóðin, skipt í tvennt. Hæstv. félagsmálaráðherra ber fram frumvarp til að jafna stöðu karla og kvenna. Ég kalla það að drepa málinu á dreif, ekki jafnréttismálum í heild sinni heldur þessu máli, að ætla að fara að líta á hlutina í því samhengi sem hv. þingmaður nefndi hér. Við erum öll sammála um að við þurfum að bæta kjör þeirra hópa sem hann hefur nefnt, ég er alveg hjartanlega sammála honum í því. En það gerum við ekki í umræðum um frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Frumvarpið er að mínu mati stórkostlegur sigur í jafnréttisbaráttu kynjanna og ég tel að við eigum að líta á málið út frá því. Kjarabarátta sú sem hv. þingmaður nefndi hér á ekki heima í þeirri umræðu. Ég vona að hv. þingmaður fari í þann leiðangur með okkur að ljúka þessu góða máli sem grundvallast á því að jafna stöðu karla og kvenna í íslensku samfélagi.