Jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla

Fimmtudaginn 01. nóvember 2007, kl. 15:53:08 (1080)


135. löggjafarþing — 16. fundur,  1. nóv. 2007.

jöfn staða og jafn réttur kvenna og karla.

142. mál
[15:53]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrir skilmerkileg svör. Það er ábyggilega gagnlegt fyrir félags- og tryggingamálanefnd að fá inn þær breytingar sem orðið hafa frá frumvarpi Guðrúnarnefndarinnar og þar til þetta frumvarp var lagt fram. Það er alveg greinilegt af svörum hæstv. ráðherra að hún hefur lagt í þetta verulega vinnu og það hef ég áður sagt hér í ræðustól. Ég mun og minn flokkur væntanlega leggja fram breytingartillögur við frumvarpið og verði þær ekki samþykktar munum við væntanlega ekki styðja það, alla vega frá mínum bæjardyrum séð.

Fjórða greinin er mér mestur þyrnir í augum. Þar eru Jafnréttisstofu veittar takmarkaðri heimildir en eftirlitsstofnunum með fjármálum, sköttum og tollum. Mér finnst mikilvægara að stuðla að jafnrétti og koma í veg fyrir mannréttindabrot eins og ég hef gert að umtalsefni hér í dag. Ég hygg að þarna sé þröskuldur, jafnvel óyfirstíganlegur þröskuldur, þar sem sett er umrætt skilyrði um rökstuddan grun. Það er erfitt að höndla rökstuddan grun nema hafa aðgang að gögnum. Hafi Jafnréttisstofa heimild til að afla gagna liggur auðvitað í eðli málsins að hún er bundin trúnaði að öllu slíku.

Það er mjög erfitt t.d. fyrir starfsmann að kvarta þegar hann hefur ekki aðgang að gögnum og slíku þannig að ég held að þetta sé hemill, að þetta sé ekki nógu gott ákvæði og ekki í anda þess sem jafnréttissinnar hafa kallað eftir. Jafnréttissinnar vilja fá virk stjórnvaldstæki til að vinna á hinum kynbundna launamun rétt eins og Samkeppnisstofnun hefur virk stjórnvaldstæki — þó að það dugi nú stundum ekki. Að mínu mati er ekki svo í frumvarpinu.