Meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Mánudaginn 12. nóvember 2007, kl. 17:09:01 (1542)


135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra.

182. mál
[17:09]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um brottfall laga nr. 39/1964, um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra.

Lög um meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra voru fyrst sett árið 1949 en voru endurútgefin árið 1964. Lögin eru því komin til ára sinna og tákn þess tíma er þau voru samin. Ég mun hér á eftir gera nánari grein fyrir ákvæðum annarra laga sem nú taka til þeirra einstaklinga sem lög nr. 39/1964 gilda jafnframt um.

Í lögum nr. 39/1964 er gert ráð fyrir að áfengisvarnanefnd eða áfengisvarnaráðunautur sé til staðar í hverju sveitarfélagi sem hafi það hlutverk að aðstoða yfirvöld við að halda hlýðni við áfengislög og jafnframt að vinna gegn ólöglegri meðferð áfengis. Samkvæmt lögunum ber lögreglu að tilkynna til áfengisvarnanefndar eða áfengisvarnaráðunauts nöfn þeirra einstaklinga sem handteknir hafa verið vegna ölvunar með skömmu millibili. Með lögum um áfengis- og vímuvarnaráð, var áfengis- og vímuvarnaráð stofnað í samræmi við aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í fíkniefna-, áfengis- og tóbaksvörnum. Í dag starfar áfengis- og vímuvarnaráð hjá Lýðheilsustöð sem fagráð og hefur tekið við að hluta því starfi sem áður var falið áfengisvarnanefndum og áfengisvarnaráðunautum, þ.e. því hlutverki að efla og styrkja áfengis- og vímuvarnir og sinna eftirliti með því að ákvæðum laga og reglugerðum um áfengis- og vímuvarnir sé fylgt.

Bein afskipti af drykkjusjúkum, eins og gert er ráð fyrir í lögunum, hafa ekki átt sér stað síðan áfengis- og vímuvarnaráð var stofnað. Gert er ráð fyrir í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga að hún veiti aðstoð við áfengissjúka og sjái um vímuefnavarnir. Af framansögðu verður ráðið að áfengis- og vímuvarnaráð og félagsþjónusta í sveitarfélögum sinni því hlutverki í dag sem áfengisvarnaráðunautum og áfengisvarnanefndum var falið áður fyrr með lögum nr. 39/1964.

Í lögum um nr. 39/1964 er gert ráð fyrir að meðferð drykkjusjúkra skuli vera í höndum lækna, sjúkrahúsa, heilsuverndarstöðva eða annarra stofnana, sem til þess hafa hlotið sérstakt leyfi heilbrigðisstjórnarinnar og háðar eru eftirliti hennar. Í lögum um heilbrigðisþjónustu er byggt á því grundvallarsjónarmiði að haldið skuli uppi öflugu opinberu heilbrigðiskerfi sem allir landsmenn eiga jafnan aðgang að óháð efnahag og búsetu. Jafnframt er með lögunum tryggt virkt eftirlit með heilbrigðisþjónustu og gæðum hennar. Lög um heilbrigðisþjónustu hafa því að geyma mun sterkari ákvæði er varða heilbrigðisþjónustu sem veitt er drykkjusjúkum en lög nr. 39/1964 gera.

Í lögum nr. 39/1964 er gert ráð fyrir að þeir sem sviptir hafa verið sjálfræði vegna drykkjusýki skuli teknir til hælisvistar. Hælisvistun drykkjusjúkra, eins og gert er ráð fyrir í lögum nr. 39/1964, þekkist ekki í dag né heldur að sjúklingur með drykkjusýki sé sendur í áfengis- og vímuefnameðferð án hans samþykkis, enda þykir slíkt ekki vænlegt til árangurs.

Samkvæmt lögræðislögum er heimilt að svipta mann lögræði með úrskurði dómara ef þörf krefur ef hann sökum ofdrykkju eða ofnotkunar ávana- og fíkniefna er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé. Er því að uppfylltum skilyrðum lögræðislaga unnt að vista drykkjusjúkan mann tímabundið á geðdeildum sjúkrahúsa. Samkvæmt lögræðislögum er heimilt að svipta mann lögræði með úrskurði dómara ef þörf krefur ef hann sökum ofdrykkju eða ofnotkunar ávana- og fíkniefna er ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum eða fé. Að uppfylltum skilyrðum lögræðislaga er unnt að vista drykkjusjúkan mann tímabundið á geðdeildum sjúkrahúsa.

Samkvæmt lögum nr. 39/1964 er ríkinu heimilt að veita styrki til bæjarfélaga og samtaka sem starfa að bindindis- og líknarmálum og reisa og reka á sinn kostnað hæli til aðhlynningar og lækninga á drykkjusjúku fólki. Til slíkra stofnana eru m.a. veittir styrkir úr Forvarnasjóði (áður gæsluvistarsjóður) samkvæmt lögum um gjald af áfengi og tóbaki. Í dag starfar Forvarnasjóður á grundvelli laga um Lýðheilsustöð. Samkvæmt lögum um Lýðheilsustöð kemur það í hlut Lýðheilsustöðvar að ráðstafa fé úr Forvarnasjóði til verkefna á sviði áfengis- og vímuvarna í samráði við ráðherra, að fengnum tillögum áfengis- og vímuvarnaráðs. Með hliðsjón af framansögðu er nauðsynlegt að ákvæði um gæsluvistarsjóð í lögum nr. 39/1964 verði felld brott.

Hæstv. forseti. Í ræðu minni hef ég í stórum dráttum farið yfir ástæður þess að ég legg fram þetta frumvarp en megintilgangurinn er að fella brott lög sem stangast á við önnur lög um þjónustu við þennan hóp fólks. Ég tel mikilvægt að frumvarpið nái fram að ganga á þessu þingi og leyfi mér því, virðulegi forseti, að leggja til að frumvarpinu verði vísað til heilbrigðisnefndar og til 2. umr.