Meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra

Mánudaginn 12. nóvember 2007, kl. 17:17:14 (1544)


135. löggjafarþing — 22. fundur,  12. nóv. 2007.

meðferð ölvaðra manna og drykkjusjúkra.

182. mál
[17:17]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Það er alveg hárrétt sem kemur hér fram hjá hv. þm. Þuríði Backman, að hér er verið að taka til í lagakistunni. Hv. þingmaður spyr mig vítt og breitt um málið. Því er skemmst frá að segja að ég er fylgjandi sjálfstæði sveitarfélaga, ég tek það alvarlega og mér finnst í rauninni að við hér á hinu háa Alþingi göngum oft og tíðum kannski of langt í því að hafa vit fyrir sveitarfélögum. Ég er því fylgjandi að þau hafi sem mest um sín mál að segja og mikið af þeim ákvörðunum sem við höfum tekið hér ætti að færa inn á vettvang sveitarfélaganna. Ég hef í undirbúningi nokkuð sem ég vil kalla heilsustefnu og þá hef ég hugsað mér að taka yfir það sem tengist forvörnum og byggja á því sem hefur gengið vel.

Útflutningur okkar Íslendinga hefur komið fram í umræðum um ýmis mál og nú má segja að við séum með útflutning á þessum hlutum, þ.e. forvörnum. Það hefur komið til vegna þess að hér hafa menn borið gæfu til að vinna saman, þ.e. stefnumótunaraðilarnir. Þeir eru í þessu tilfelli stjórnmálamenn, þeir sem koma að forvörnum, t.d. íþróttafélög og frjáls félagasamtök og skólar og aðrir slíkir og rannsóknaraðilar.

Við Íslendingar eigum mjög góðar rannsóknir og betri en aðrar þjóðir, t.d. um áfengis- og vímuefnanotkun og ýmislegt annað meðal grunnskólabarna. Það er skemmst frá því að segja að það hefur náðst árangur í Reykjavíkurborg miðað við aðrar borgir víðs vegar í Evrópu, af því að við erum náttúrlega ekki ein á báti varðandi þessi verkefni og það er vegna þess að menn hafa unnið þetta saman. Því ef menn ætla að ná árangri í forvörnum þá verða aðilar að vinna saman, fjölskyldan, skólinn, frjálsu félagasamtökin og aðrir. Menn verða líka að hafa raunverulegar upplýsingar til þess að vita hvernig gengur og það verður að vera hægt að mæla aðgerðirnar sem farið er í, og af því að við höfum gert það þá höfum við náð árangri á undanförnum áratug sem ég veit ekki til að aðrar þjóðir hafi náð. Og í þessu tilfelli aðrar borgir.

Þannig lít ég á þessi mál, ég vil heimfæra þessa aðferðafræði yfir á fleiri þætti og yfir á fleiri svið. Ég mun kynna það og ég hóf strax undirbúning að því þegar ég tók við sem heilbrigðisráðherra. Þetta var eitt af því fyrsta sem ég lagði áherslu á, það voru forvarnir. Ég vil kannski setja þær undir nokkuð sem heitir heilsustefna sem felst í því að reyna að líta ekki eingöngu á málin með þeim hætti að heilbrigðisþjónusta sé til þess að gera við þegar eitthvað kemur upp á hjá okkur, heldur eigum við að líta á hlutina þannig að við viljum að hér séu sem heilbrigðastir einstaklingar og við þurfum að hugsa fyrir því. Því mikið af ógnum herja á okkur sem voru ekki til staðar áður, lýðheilsusjúkdómar. Við þekkjum verkefnin sem við flokkum undir hinar hefðbundnu forvarnir, t.d. áfengis- og vímuefnanotkun og tóbaksnotkun, offitu og hreyfingarleysi og ýmsir aðrir sjúkdómar sem við eigum að setja undir þennan hatt og skipuleggja okkur út frá.

Nú veit ég ekkert hvort hv. þingmaður er einhverju nær um það sem hún spurði um en fyrirspurn hv. þingmanns kveikti í mér vegna þess að ég er afskaplega mikill áhugamaður um þessi mál og hef á þeim mjög sterkar skoðanir. Ég hef verið að vinna að þeim frá fyrsta degi eftir að ég kom inn í ráðuneytið og ég mun leggja fram mínar hugmyndir, bæði á næstunni og eftir því sem lengra líður og ég vonast til að við náum góðum árangri í þessu málum sem ég veit að við erum öll sammála um.