Almannavarnir

Þriðjudaginn 13. nóvember 2007, kl. 14:06:50 (1580)


135. löggjafarþing — 23. fundur,  13. nóv. 2007.

almannavarnir.

190. mál
[14:06]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Núgildandi lög um almannavarnir voru upphaflega sett á fyrri hluta 7. áratugarins og tóku ríkt mið af stöðu heimsmála á þeim tíma, ekki síst þeirri hættu sem menn töldu þá stafa af hugsanlegum kjarnorkuátökum milli austurs og vestur. Eins og við nú vitum hefur sem betur fer aldrei reynt á lögin vegna hernaðarátaka hér á landi, lögin hafa hins vegar reynst vel í tímans rás til að bregðast við afleiðingum náttúruhamfara og ber þar hæst eldgosið í Vestmannaeyjum og snjóflóð á Vestfjörðum.

Hinum upphaflegu lögum hefur verið breytt allnokkrum sinnum. Síðasta meginbreyting fólst í því að færa yfirstjórn og ábyrgð þessara mála til embættis ríkislögreglustjóra í stað almannavarnaráðs og Almannavarna ríkisins. Ég hef lengi talið nauðsynlegt að fara yfir almannavarnalögin og breyta þeim í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur á þessu sviði, ekki síst með vísan til þess mikla samhæfingarstarfs fjölmargra aðila í leitar- og björgunarmálum sem orðið hefur í Björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð hér í Reykjavík og ég mun víkja nánar að síðar í máli mínu.

Eins og getið er um í greinargerð frumvarpsins boðaði ég til 100 manna málþings um þessi mál hinn 8. mars 2005 og sóttu það fulltrúar allra þeirra aðila er láta sig almannavarnir varða, þar á meðal fulltrúar sveitarfélaganna sem verða áfram meginburðarás almannavarnakerfisins enda yrði það hvorki fugl né fiskur þegar litið er til náttúruhamfara án staðarþekkingar og virkrar þátttöku heimamanna.

Eftir málþingið setti ég af stað vinnu á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins (Forseti hringir.) til að setja hugmyndir um nýskipan þessara mála í frumvarpsbúning — (Forseti hringir.)

(Forseti (KÓ): Hæstv. dómsmálaráðherra. Hér var kynnt inn 1. dagskrármál fundarins, almenn hegningarlög, en okkur heyrist sem verið sé að kynna 2. dagskrármálið sem er 190. mál. Ég vil bara upplýsa …)

Já, ég taldi mig vita hvaða mál ég væri að tala um en það er gott að forseti vakti athygli mína á því.

Eftir málþingið setti ég af stað vinnu á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til að setja hugmyndir um nýskipan þessara mála í frumvarpsbúning. Leitað var eftir sjónarmiðum margra aðila og átti ég fundi með talsmönnum félaga og stofnana sem að málinu koma. Eftir að frumvarpið hafði tekið á sig núverandi mynd ræddi ég við forustumenn Sambands íslenskra sveitarfélaga um efni þess þar sem m.a. var reifað hvort ákvæði frumvarpsins leiddu til þess að ábyrgð og ákvarðanataka, t.d. vegna náttúruhamfara, færðist fjær íbúum en samkvæmt gildandi lögum. Ég tel að ekkert í frumvarpinu gefi tilefni til að ætla að svo verði. Við nýskipan lögreglumála lagði ég áherslu á hlut sýslumanna í almannavarnakerfinu og leit þá m.a. til Patreksfjarðar og Víkur í Mýrdal þar sem sýslumenn fara ekki lengur með lögreglustjórn en hafa áfram mikilvægu hlutverki að gegna á sviði almannavarna til að tryggja sem best tengsl við heimamenn á þessu sviði.

Grunnatriði í þessu nýja frumvarpi er að við allar neyðaraðstæður verði byggt á sama viðbragðskerfi og að þar gegni samhæfingar- og stjórnstöðin við Skógarhlíð lykilhlutverki. Við höfum séð það undanfarin missiri í þeim tilvikum þegar stöðin hefur verið virkjuð að viðkomandi sveitarfélög sjá sér hag í því að senda fulltrúa sína inn í stjórnstöðina til að tryggja sem best samband hennar og aðgerðastjórna á heimavettvangi. Með tilkomu TETRA-fjarskiptakerfisins um land allt hefur öll aðstaða til samhæfingar og stjórnunar tekið stakkaskiptum. Kerfið verður aldrei nýtt til fullnustu nema með virkri þátttöku heimamanna. Sem fulltrúar þeirra gegna sveitarfélög og almannavarnanefndir í héraði lykilhlutverki við gerð viðbragðsáætlana og alla framkvæmd þeirra.

Gott nýlegt dæmi um samstarf ríkis og heimamanna er gerð áhættumats og viðbragðsáætlana vegna hættu á flóðum við Markarfljót á Rangárvöllum og í Landeyjum vegna hugsanlegra eldsumbrota í vestanverðum Mýrdalsjökli eða Eyjafjallajökli. Heimamenn undir forustu sýslumannsins á Hvolsvelli hrundu þessu verkefni af stað í góðri samvinnu við almannavarnadeild embættis ríkislögreglustjóra en Alþingi samþykkti tillögur mínar og ríkisstjórnarinnar um sérstakar fjárveitingar vegna þess. Hafa íbúar á svæðinu þegar tekið þátt í æfingu á grundvelli viðbragðsáætlananna. Ég tel þetta skólabókardæmi um einstaklega góða samvinnu embættis ríkislögreglustjóra og heimamanna um framkvæmd á brýnu almannavarnaverkefni.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því í 9. gr. að sveitarstjórnir skipi almannavarnanefndir í sveitarfélaginu og skipuleggi starf að almannavörnum í héraðinu, vinni að gerð hættumats og viðbragðsáætlana og prófanir á þeim í samvinnu við ríkislögreglustjóra. Í almannavarnanefndum sitji fulltrúar í sveitarstjórn ásamt öðrum.

Í viðræðum mínum við sveitarfélögin var einnig farið yfir hugmyndafræðina að baki frumvarpinu en hún er hin sama og búið hefur að baki almannavarnastarfi okkar undanfarna áratugi. Þau sjónarmið hafa verið reifuð að skipulagi okkar skuli breytt meira í átt til þess sem gerist í Svíþjóð. Ég tel með öllu óþarft að nálgast úrlausnarefni okkar á nýjum hugmyndafræðilegum grunni miðað við reynslu hér og í Svíþjóð af því að virkja almannavarnakerfið eða af viðbrögðum á hættustundu. Í greinargerð um 2. gr. frumvarpsins er vikið að ákveðnum grunnreglum sem setja svip sinn á frumvarpið og er í þeim tekið nokkurt mið af því sem lagt er til grundvallar hjá Svíum.

Þá vil ég taka fram að ekki er ætlunin að kostnaður sveitarfélaga af almannavörnum aukist vegna frumvarpsins og taldi ég þess vegna ekki ástæðu til að meta sérstaklega kostnaðaráhrif frumvarpsins gagnvart sveitarfélögunum með vísan til samkomulags ríkis og sveitarfélaga frá árinu 2005 um kostnaðarmat lagafrumvarpa og stjórnvaldsfyrirmæla gagnvart sveitarfélögum.

Um leið og ég árétta að frumvarpið gerir ekki ráð fyrir neinni meginbreytingu á samskiptum ríkis og sveitarfélaga, áfram verður byggt á sömu stoðum og þeim sem eru undir núverandi almannavarnakerfi, minni ég á að frumvarpið hefur að geyma grundvallarbreytingar á því hvernig ríkisstjórn og stofnanir ríkisins koma að yfirstjórn almannavarna og öryggismála og stefnumótun á þessu sviði. Þar er m.a. tekið mið af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tilefni af brottför varnarliðsins sem birt var 26. september 2006. Ríkisstjórnin lýsti því yfir að til þess að efla almennt öryggi yrði við endurskoðun laga um almannavarnir komið á fót miðstöð þar sem tengdir yrðu saman allir aðilar sem koma að öryggismálum innan lands, hvort heldur vegna náttúruhamfara eða hættu af mannavöldum. Til að tryggja sem best samhæfingu innan miðstöðvarinnar skyldu forsætisráðherra, utanríkisráðherra, dóms- og kirkjumálaráðherra, samgönguráðherra, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og umhverfisráðherra sitja í yfirstjórn hennar. Dagleg stjórn miðstöðvarinnar yrði á vegum dóms- og kirkjumálaráðherra og var honum falið að leggja fram frumvarp til nýrra almannavarnalaga.

Þetta frumvarp er einmitt til 1. umr. hér í dag og hefur iðnaðarráðherra bæst í ráðherrahópinn sem nefndur var í fyrrnefndri yfirlýsingu. Er breytingin gerð með vísan til þess hve miklu orkuöryggi skiptir við allar ráðstafanir á sviði almannavarna. Ramminn utan um almannavarnaskipulagið er þannig alveg nýr samkvæmt frumvarpinu því að þar er gert ráð fyrir að almannavarnaráð víki fyrir hinu nýja almannavarna- og öryggismálaráði sem starfi undir formennsku forsætisráðherra. Hlutverk almannavarna- og öryggismálaráðs er að marka stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum en í stefnunni skal gera grein fyrir ástandi og horfum í þessum málum, fjalla um áhersluatriði varðandi skipulag almannavarna og öryggismála, forvarnastarf, nauðsynlega samhæfingu á efni viðbragðsáætlana og starfsemi opinberra stofnana á því sviði, nauðsynlegar birgðir til að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum, endurreisn eftir hamfarir og aðrar aðgerðir sem ráðið telur nauðsynlegar til að ná því markmiði að tryggja öryggi landsmanna sem best. Umsýsla vegna ráðsins og undirbúningur vegna funda þess yrði í höndum dóms- og kirkjumálaráðherra. Þeir ráðherrar sem ég hef áður nefnt skulu eiga sæti í almannavarna- og öryggismálaráði en auk þeirra er forsætisráðherra heimilt að kveðja allt að tvo ráðherra til setu í ráðinu í senn vegna sérstakra mála. Með ráðherranum tækju ráðuneytisstjórar og forstöðumenn stofnana á vegum einstakra stofnana sæti í ráðinu. Þar ættu Slysavarnafélagið Landsbjörg, Rauði krossinn, samræmd neyðarsímsvörun og sveitarfélögin einnig fulltrúa.

Í 1. gr. frumvarpsins er gerð grein fyrir gildissviði þess. Er því ætlað að taka til samhæfðra viðbragða samfélagsins til að takast á við afleiðingar almannahættu sem ógnar lífi og heilsu almennings, umhverfi og/eða eignum án tillits til þess af hvaða rótum almannahættan er runnin. Líkt og í núgildandi lögum er markmiðið að undirbúa, skipuleggja og grípa til ráðstafana sem miða að því að koma í veg fyrir að almenningur verði fyrir líkams- eða eignatjóni af völdum náttúruhamfara eða af mannavöldum, hernaðaraðgerða eða af annarri hættu, sem og vegna farsótta og hryðjuverka sem er nýmæli. Þá er markmið og gildissvið laganna rýmkað með áherslu á fyrirbyggjandi ráðstafanir og gerð viðbragðsáætlana.

Samkvæmt ákvæðum frumvarpsins skal ríkislögreglustjóri taka ákvörðun um almannavarnastig hverju sinni og tilkynna það til dómsmálaráðherra. Jafnframt eru lagðar ýmsar aðrar skyldur á ríkislögreglustjóra. Hann skal m.a. hafa eftirlit með skipulagi almannavarna og umsjón með gerð hættumats í samráði við almannavarnir sveitarfélaga. Hann skal taka þátt í undirbúningi og gerð viðbragðsáætlana og hafa eftirlit með endurskoðun þeirra. Þá skal hann hafa eftirlit með samhæfingu viðbragðsaðila og annarra aðila og stjórn aðgerða, bæði áður og eftir að hættu ber að garði, og skipuleggja forvarnir og almenningsfræðslu á sviði almannavarna.

Við embætti ríkislögreglustjóra mun samkvæmt V. kafla frumvarpsins starfa samhæfingar- og stjórnstöð undir sérstakri stjórn. Í stöðinni fer fram samhæfing og yfirstjórn almannavarnaaðgerða með hliðsjón af almannavarnastigi og viðeigandi viðbragðsáætlun. Stöðina er einnig unnt að virkja vegna hvers kyns aðgerða við leit og björgun. Ríkissjóður ber kostnað vegna þessarar stöðvar. Hér er tekið mið af reynslunni í Björgunarmiðstöðinni við Skógarhlíð en hún er virkjuð æ oftar af viðbragðsaðilum vegna þess hve góð reynsla hefur fengist af því samhæfingarstarfi sem unnið er undir merkjum hennar. Frumvarpið gerir ráð fyrir að samhæfingar- og stjórnstöðin lúti stjórn níu manna, ráðherra skipi formann án tilnefningar en aðrir komi frá ríkislögreglustjóra, Landhelgisgæslu, landlækni, slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, samræmdri neyðarsímsvörun, Slysavarnafélaginu Landsbjörgu og auk þess tilnefnir samgönguráðherra og Samband íslenska sveitarfélaga hvort sinn fulltrúa. Hlutverk stjórnarinnar er að huga að innra skipulagi, rekstri og samstarfi viðbragðsaðila en við stjórn aðgerða verði farið eftir viðbragðsáætlunum.

Í VI. kafla frumvarpsins er gerð krafa um að tilteknir aðilar geri viðbragðsáætlanir og jafnframt tiltekið um hvað skuli fjallað í þeim. Er gert ráð fyrir að skyldur séu lagðar á ríkisstofnanir, sveitarfélög og í einstökum tilvikum einkaaðila um gerð viðbragðsáætlana. Með þessu á að tryggja að almannavarnakerfið sé ávallt reiðubúið á hættustundu og að viðbrögð séu vel skilgreind þegar aðgerða er þörf. Gert er ráð fyrir að þjónusta við almenning verði aukin á meðan hættuástand varir og eftir að því lýkur. Ríkislögreglustjóra er í frumvarpinu veitt heimild til að stofna tímabundið þjónustumiðstöð vegna tiltekinnar hættu eða hættuástands. Skulu verkefni þjónustumiðstöðvarinnar m.a. felast í upplýsingagjöf til almennings og þjónustu við þá aðila sem hafa orðið fyrir tjóni auk þess að annast samskipti við fjölmiðla vegna aðgerða sem gripið er til hverju sinni. Er þjónustumiðstöð ætlað að starfa í nánum tengslum við sveitarfélögin sem orðið hafa fyrir áfalli og aðstoða ráðuneyti, sveitarfélög og undirstofnanir þeirra við að veita almenningi almenna aðstoð til að létta undir með viðbragðsaðilum, t.d. með áfallahjálp og svörum við fyrirspurnum um bætur vegna eignatjóns. Við það er miðað að ríkissjóður beri kostnað vegna þessara tímabundnu þjónustumiðstöðva.

Loks er í frumvarpinu gert ráð fyrir að Alþingi kjósi þriggja manna rannsóknarnefnd almannavarna sem starfi sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum, en nefndinni er ætlað að rannsaka að loknu hættuástandi þær viðbragðsáætlanir sem stuðst var við og viðbrögð viðbragðsaðila. Skal nefndin skila skýrslu til dómsmálaráðherra, ríkislögreglustjóra og allsherjarnefndar Alþingis. Ég vek athygli hv. þingmanna á því að í 34. gr. frumvarpsins er tekið fram að samráð verði haft við Samband íslenskra sveitarfélaga um setningu reglugerða á grundvelli laganna og jafnframt er tekið fram í 3. mgr. 16. gr. frumvarpsins að samráð verði haft við þau sveitarfélög sem málið varðar um hlutverk tímabundinnar þjónustumiðstöðvar. Var talin ástæða til að koma slíkri miðstöð á fót vegna náttúruhamfara.

Virðulegi forseti. Lög um almannavarnir eru í eðli sínu rammalöggjöf sem er ætlað að tryggja virkar forvarnir gegn vá og rétt viðbrögð allra aðila á hættustundu. Verði frumvarpið að lögum á það ekki að hafa í för með sér breytingar hvað varðar hlutverk og ábyrgð hvers og eins viðbragðsaðila. Frumvarpið skapar á hinn bóginn skýran ramma og afmarkar skyldur og ábyrgð, viðbrögð við einstökum atvikum munu ráðast af áætlunum sem um þau verða gerðar. Mikilvægt er að við áætlanagerðina hafi menn verkaskiptingu einstakra aðila í huga svo að dregið sé úr líkum á flækjum á úrslitastundu.

Virðulegi forseti. Ég lýk nú máli mínu og vona að þessi tilfærsla í dagskránni valdi ekki vandræðum við þingstörfin en að svo mæltu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar.