Almannatryggingar o.fl.

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007, kl. 16:41:11 (1764)


135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[16:41]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki meira smyglgóss en svo að þetta atriði er tekið sérstaklega fram í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Og af því hér er verið að tala um stefnu Sjálfstæðisflokksins þá veit ég ekki betur en að algjör samstaða sé milli flokkanna og jafnvel fleiri flokka um þessa þætti.

Af því menn eru að ræða um hvers eðlis þetta er þá held ég, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon leiðréttir mig ef hann hefur ekki talað sérstaklega um það, að hv. þingmaður hafi skrifað heila bók um að við ættum að koma hér upp norrænu velferðarkerfi og halda utan um það. En fyrirmynd þessa er sótt að stærstum hluta til lands sem heitir Svíþjóð. Ég veit ekki hvort það land er skyndilega orðið að frjálshyggjuparadís en það væri þá algjörlega nýtt. Sama á við um önnur Norðurlönd sem menn líta til þegar þeir eru að huga að þessum breytingum.

Ég hélt að öllum hefði verið það ljóst sem hafa lesið stjórnarsáttmálann að þetta væri sú leið sem ríkisstjórnin ætlaði að fara. Ég á svolítið erfitt með að skilja að það komi einhverjum á óvart. Ég hef í rauninni ekki hitt nokkurn einasta mann sem almennt fylgist með stjórnmálum sem hefur látið þetta koma sér á óvart. Þetta hefur legið fyrir í stjórnarsáttmálanum að menn ætluðu að fara þessa leið. Það sem hv. þingmaður minntist á er bara tæki til að koma því í framkvæmd

Frumvarpið sem við ræðum gengur út á að skilja á milli heilbrigðisþjónustu annars vegar og félagslega þáttarins hins vegar og er liður í að ná þeim markmiðum sem hafa ekki þótt sérstaklega róttæk fram til þessa. Þetta er nokkuð sem frændur okkar og vinir hafa praktíserað í mörg ár og jafnvel áratugi og með þeim árangri að þeir vilja halda því áfram.