Almannatryggingar o.fl.

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007, kl. 17:12:37 (1770)


135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[17:12]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega er sá þáttur sem ég gerði mest úr í ræðu minni hluti af frumvarpinu. Þetta er 18. gr. frumvarpsins þannig að ekki má gera lítið úr því. Hinir þættirnir sem ég ræddi um fundust mér svo sjálfsagðir og eðlilegir að ég taldi ekki ástæðu til að ræða þá frekar.

Ég rakti í ræðu minni þá kosti sem rannsóknir hafa sýnt fram á að þetta nýja og breytta fjármögnunarkerfi hafi fram yfir það gamla, þ.e. föst fjárlög. Það er alveg ljóst að það leiðir til betri nýtingar fjár. Það leiðir til betri forgangsröðunar og að verið er að skoða nánar á hvaða stigi veita á þjónustuna. Það leiðir líka til meira vals sjúklinga þannig að þeir eru ekki eingöngu þiggjendur þjónustu heldur þátttakendur í að ákvarða þá þjónustu sem þeir þurfa á að halda.

Ég tel því að engin ástæða sé til annars en að fara þessa leið. Hún er ekki gallalaus, enda nefndi ég það í ræðu minni. Það eru ýmsir gallar sem þarf að hafa auga með varðandi aðferðafræðina. Þeir eru þekktir, bæði af stjórnvöldum og seljendum hennar, en með góðu eftirliti ríkisins og þeirra sem kaupa þjónustuna á að vera hægt að hafa stjórn á þeim. Þrátt fyrir galla kerfisins eru kostirnir það margir að óráð væri að fara ekki þessa leið.