Almannatryggingar o.fl.

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007, kl. 17:14:48 (1771)


135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[17:14]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég bið hv. þingmann um að fara aðeins betur yfir þáttinn varðandi val sjúklinganna. Vissulega er hugmyndafræðin góð svo langt sem hún nær. Hún er einnig góð þegar litið er á tannlæknaþjónustu hér á landi. En er hún góð þegar kemur að því vali sjúklinganna að vita hvaða tannlæknir er ódýrastur og hvert væri þá best að fara, fyrir sjúklinginn sjálfan í þessu tilfelli, þar sem langflestir greiða allt úr eigin vasa en í öðrum tilfellum greiðir ríkið?

Fólk fer ekki svo gjarnt á milli, það velur sér lækni og heldur sig við hann. Valið er þó sjaldnast fyrir hendi á landsbyggðinni þannig að hugsanlega er hægt að framfylgja hugmyndafræðinni í þéttbýlinu fyrir sunnan eða í fjölmennari löndum.

Þegar við komum svo að valinu hér og einkarekstri þá fer enginn út í þess háttar einkarekstur nema að hafa einhvern ábata af rekstrinum. Ég spyr því hv. þingmann hvort hann telji að þegar upp er staðið sé þessi þjónusta, þótt hún sé skilgreindari, skilvirkari og unnin öðruvísi faglega, ódýrari fyrir samfélagið eða hvort kostnaðinum sé komið yfir á sjúklinginn. Einhvers staðar verður hagnaðurinn að myndast hjá þeim sem veita þjónustuna ef hún er rekin í einkarekstri, hvort sem það er félag eða einstaklingar.