Almannatryggingar o.fl.

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007, kl. 18:21:24 (1784)


135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:21]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Síðasti ræðumaður, Árni Páll Árnason, var að svara andsvari Steingríms J. Sigfússonar frá því fyrr í dag, út af umræddri 18. gr. sem ég segi að sé eins og aðskotahlutur þarna inni. Hann nefnir að einkennilegt sé að við skulum taka í mál að verið sé að fara í undirbúning og kostnað við stofnun án þess að hafa lagaheimildir til.

Ég segi nú bara: Ætli verkefnin séu ekki næg, bæði hjá heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti, að sinna þessari skiptingu á milli ráðuneyta og leggja síðan fram frumvarp sem á að snúa að þessari nýju stofnun, Innkaupastofnun heilbrigðisþjónustu, eftir áramótin — hafa þá hlutina á sínum stað og fara að vinna að þeirri stofnun eftir að það frumvarp hefur verið samþykkt. Við erum ekki að tala fyrir því að farið sé á skjön við fjárlögin hvað þetta varðar.

Við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði tölum fyrir skilvirkri og öflugri almannaþjónustu en okkur greinir á um forsendurnar. Á hún í grunninn að vera opinber þjónusta, sem við tölum fyrir, eða í sameignarforminu, sem við höfum sannarlega stutt, og er töluvert stór þáttur í þjónustunni í dag, eða á að ýta undir frekari einkavæðingu eða einkarekstur út frá arðsemissjónarmiðum þeirra sem reka þjónustuna? (Forseti hringir.) Við viljum ekki sjá heilbrigðisþjónustuna rekna út frá arðsemissjónarmiði.