Almannatryggingar o.fl.

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007, kl. 18:23:36 (1785)


135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:23]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki er verið að ýta undir rekstur heilbrigðisþjónustunnar út frá gróðasjónarmiðum. Ef við vitum að stofnun getur gert aðgerð fyrir hundrað kr. og við gefum gróðafyrirtæki tækifæri til að gera hana fyrir níutíu kr., er þá verið að ýta undir rekstur sem skaðar uppbyggingu almannaþjónustu? Við erum alls ekki að gera það.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður segir að afstaða vinstri grænna byggist á því að við eigum að bíða fram á vor með að leiða í lög nauðsynleg ákvæði um nýja innkaupastofnun. Það þykja mér ekki góð vinnubrögð ef ekki á að nýta þann tíma sem fram undan er, hér þarf að innleiða ný vinnubrögð og byggja upp nýja þjónustu. Það kom skýrt fram í dag hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni — og fyrst þingmaðurinn sendir skot í andsvörum á hann ekkert betra skilið en umræðan út þann daginn snúist upp í hálfgerðan miðilsfund þar sem maður reynir að rýna í orð hans að honum fjarstöddum — að engin ástæða væri til að afgreiða þetta nú vegna þess að afgreiða ætti þetta allt í einum pakka í vor. Það ber ekki vitni mikilli virðingu fyrir vægi almannaþjónustu að ætla mönnum á þremur sumarmánuðum að setja upp stofnun sem hefur þetta mikilvæga hlutverk með höndum.