Almannatryggingar o.fl.

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007, kl. 18:27:45 (1787)


135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:27]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem hér er á ferðinni er ekkert flóknara og erfiðara en það sem systurflokkur vinstri grænna treysti sér til að styðja í Svíþjóð. Það er kerfi sem hefur gefist gríðarlega vel þar. Það felur ekki í sér að verið sé að auka kostnað. Það tryggir okkur fyrir því ástandi að útgjöldin vaxi umfram það sem ætlað er.

Ég spyr enn og aftur: Út frá hvaða almannahagsmunum er það vont að einkaaðili geri aðgerð með fullnægjandi gæðakröfum fyrir níutíu kr. þegar við vitum að það kostar ríkisspítalann hundrað kr? Hver bíður tjón? Það er alla vega ekki almenningur. Það er ekki fólkið sem borgar fyrir aðgerðina.

Það kann hins vegar að vera vinstri grænir standi vörð um óbreytt ástand vegna þess að þeir vilji verja hagsmuni þeirra sem veita þjónustuna eða að einhverjir kerfislægir hagsmunir vegi þyngra. Þá kemur aftur að þessu séreðli Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að vera mikill kerfisvarðstöðuflokkur og taka það hlutverk sitt að vera varðhundur kerfisins framar varðstöðu um almannahagsmuni. Þar skilur svo sannarlega á milli Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Samfylkingarinnar.