Almannatryggingar o.fl.

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007, kl. 18:42:02 (1790)


135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:42]
Hlusta

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson gerði mig mjög að umtalsefni í ræðu sinni og þakka ég honum þann heiður. Hann átaldi mjög árangur Samfylkingarinnar af umbótum í velferðarmálum og flutti því fram til sannindamerkis nýframkomið fjárlagafrumvarp.

Hv. þingmaður var undir lok síðasta kjörtímabils formaður fjárlaganefndar Alþingis og veit því mætavel að ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Sjálfstæðisflokksins tók við völdum 23. maí en rammanum fyrir fjárlögin var lokað 29. maí. Hér er því um að ræða áætlanir Framsóknarflokksins í hnotskurn sem hefur komið í okkar hlut að fylgja eftir sem við að sjálfsögðu gerum með glöðu geði og öxlum þá ábyrgð. En það tekur hins vegar lengri tíma að sjá stað þeim breytingum sem við hyggjumst gera í tryggingakerfinu enda er sá málaflokkur fyrst nú með þessu frumvarpi sem hér er til umræðu að flytjast til hæstv. félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur.

Ég verð nú að segja alveg eins og er að mér finnst það koma úr hörðustu átt frá þingmanni Framsóknarflokksins sem stóð til dæmis að þeirri smánarlegu aðferð sem höfð var við að koma á úrbótum fyrir foreldra langveikra barna á síðasta kjörtímabili, að koma hér upp og gera lítið úr þeim úrbótum sem Samfylkingin er að vinna í tryggingamálum og félagsmálum.

Það er alveg ljóst að aðgerðir hæstv. ráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur á síðustu mánuðum hafa verið með þeim hætti að Samfylkingin getur borið höfuðið mjög hátt. Ég hlakka til að sjá til verka hæstv. félagsmálaráðherra þegar hún fær tryggingamálin í sínar hendur.