Almannatryggingar o.fl.

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007, kl. 18:50:28 (1795)


135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:50]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kjör aldraðra og öryrkja hafa á umliðnum árum batnað svo tugum prósenta nemur. Við höfum hins vegar ekki náð í land, þó að kjör hluta fólks í þessum hópum séu óásættanleg búa margir við óásættanleg kjör. Hv. þingmaður sagði að ófremdarástand væri í þessum málaflokki. Ég held að fulldjúpt sé í árinni tekið en það má bæta stöðu margra hópa.

Ég kem hingað upp og segi hvert fyrsta skref Samfylkingarinnar sé í fyrsta fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar, þ.e. að kjör aldraðra og öryrkja munu skerðast að raungildi á næsta ári. Hv. þingmaður kemur hingað upp, lemur sér á brjóst og fer að tala um fortíð Framsóknarflokksins og þá væntanlega Sjálfstæðisflokksins líka. En hver eru fyrstu skref nýrrar ríkisstjórnar? Að skerða kjör þessara hópa rétt eins og árin 1991–1995 þegar kjör þessara hópa skertust líka.

Hv. þm. Árni Páll Árnason hlær að því. Staðreyndin er sú að þá versnuðu kjör aldraðra í samfélaginu. (Gripið fram í.) Þau hafa batnað um tugi prósenta á síðustu tólf árum, en (Gripið fram í.) við getum gert betur. Við framsóknarmenn lofuðum úrbótum í þessum efnum í aðdraganda síðustu kosninga, rétt eins og sjálfstæðismenn gerðu, rétt eins og samfylkingarmenn gerðu. Því miður fylgdu þeim orðum engar efndir (Forseti hringir.) því að þetta er staðreynd málsins. Þetta er stefnumörkun ríkisstjórnarinnar þó að hv. þm. Árni Páll Árnason segi að Samfylkingin hafi ekki getað haft nein áhrif á útgjaldaramma fjárlagafrumvarpsins.

Ég hvet hv. þm. Ellert B. Schram, sem talsmann þess hóps sem eldri borgarar eru, (Forseti hringir.) að bæta hér úr. Hann hlýtur að vera mér sammála um að þetta er ekki viðunandi staða.