Almannatryggingar o.fl.

Fimmtudaginn 15. nóvember 2007, kl. 18:55:10 (1798)


135. löggjafarþing — 26. fundur,  15. nóv. 2007.

almannatryggingar o.fl.

195. mál
[18:55]
Hlusta

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir hv. þingmaður taka stórt upp í sig og fara frjálslega með tölur þegar hann heldur því fram að í fjárlagafrumvarpinu felist skert kjör aldraðra eða lífeyrisþega. Ég hefði reyndar haldið að hv. þingmaður, fyrrverandi formaður fjárlaganefndar, kynni að lesa fjárlagafrumvarpið.

Á bls. 361 í fjárlagafrumvarpinu kemur fram að lífeyristryggingar hækka um 6,3% frá fjárlögum 2007, það eru ekki 3,3%. Síðan er það sundurgreint, ellilífeyrir hækkar um 3,3% en tekjutryggingin hækkar um 8,6%. Hv. þingmaður verður að horfa á heildartöluna þegar hann fullyrðir með þessum hætti.

Við skulum einnig hafa í huga, og ég tek undir með hv. þingmanni, að stór skref hafa verið stigin á síðustu árum í því að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Á bls. 361 kemur einnig fram að frá reikningi 2006 til fjárlaga 2008 hafa lífeyristryggingar hækkað um 31% og það er nú töluvert, þær hækkuðu um þriðjung. Kjör lífeyrisþega hafa batnað um 31,2% frá reikningi 2006. Við skulum því ekki vanmeta það sem vel er gert, alls ekki, og það er viðurkennt að stór skref hafa verið stigin á síðustu árum.

Aðallega vil ég þó beina því til hins ágæta hv. þingmanns að lesa betur fjárlagafrumvarpið því að hann fór með rangar tölur.