Kostnaður við samgöngur til Vestmannaeyja

Mánudaginn 19. nóvember 2007, kl. 15:31:22 (1838)


135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

5. fsp.

[15:31]
Hlusta

Bjarni Harðarson (F):

Herra forseti. Það mál sem mig langar til að bera hér upp í fyrirspurnarformi til hæstv. samgönguráðherra lýtur að samgöngum milli lands og Eyja en fyrir kosningar nú í vor var það loforð allra flokka á opnum fundi í höllinni í Vestmannaeyjum að beita sér fyrir því á nýju kjörtímabili að lækka gjaldskrá með Herjólfi.

Það er auðvitað hægt að reikna kostnaðinn út með ýmsum hætti en ég ákvað að reikna þetta einfaldlega út frá eigin fjölskyldu sem getur talist ósköp venjuleg fjölskylda þó að börn séu að vísu þar orðin nokkuð stálpuð og þá kostar það mig 10.935 kr. að fara milli Þorlákshafnar og Vestmannaeyja aðra leiðina. Þá er ég að miða við full afsláttarkjör þannig að ég hafi keypt afsláttarkort fyrir 16.200 kr. sem dugar þá ekki fyrir ferðinni fram og til baka.

Það má auðvitað deila um það við hvað kostnaður við samgöngur til Vestmannaeyja eigi að miðast en það hefur verið viðmið í umræðum stjórnmálamanna allra flokka að það eigi að vera sambærilegt við ferðakostnað til annarra staða. Ef við tökum til samanburðar hvað mundi kosta mig að fara með þessa sömu fimm manna fjölskyldu á okkar bíl austur í Vík í Mýrdal reiknast mér til að kostnaðurinn sé um 2.500 kr., reiknað þá með bensíni og öðru eins sem bíllinn þarf til viðhalds og olíu á þeirri leið.

Ég tel að þessi staða varðandi byggð í Vestmannaeyjum sé algerlega óviðunandi. Á mjög fáum árum hefur íbúafjöldi Vestmannaeyja hrunið úr 5.000 niður í 4.000 og byggðinni þar (Forseti hringir.) er stór hætta búin ef íbúum fækkar enn meira.