Olíugjald og kílómetragjald

Mánudaginn 19. nóvember 2007, kl. 15:55:35 (1851)


135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

olíugjald og kílómetragjald.

231. mál
[15:55]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um olíugjald og kílómetragjald, nr. 87/2004, með síðari breytingum.

Með frumvarpi þessu er lagt til að tímabundin lækkun á fjárhæð olíugjalds og sérstaks kílómetragjalds verði fest til frambúðar. Með lögum nr. 87/2004, um olíugjald og kílómetragjald, var fjárhæð olíugjaldsins ákvörðuð 45 kr. á hvern lítra af gjaldskyldri olíu.

Vegna óhagstæðrar þróunar á heimsmarkaðsverði á dísilolíu samanborið við heimsmarkaðsverð á bensíni var olíugjaldið lækkað tímabundið úr 45 kr. í 41 kr. með lögum nr. 70/2005. Gilti sú tímabundna lækkun í sex mánuði frá gildistöku laganna um olíugjald og kílómetragjald, þ.e. frá 1. júlí til 31. desember 2005. Síðan þá hefur þessi tímabundna lækkun þrívegis verið framlengd.

Frá því að olíuverð var tekið upp hefur heimsmarkaðsverð á dísilolíu oftar en ekki verið hærra en heimsmarkaðsverð á bensíni. Spár gera ráð fyrir því að heimsmarkaðsverð á dísilolíu verði áfram að jafnaði hærra en heimsmarkaðsverð á bensíni. Með vísun til þessarar þróunar á heimsmarkaðsverði, úr því að eitt af markmiðum laga um olíugjald og kílómetragjald var að gera dísilknúnar bifreiðar að ákjósanlegum valkosti, er með frumvarpi þessu lagt til að þessi tímabundna lækkun olíugjalds og sérstaks kílómetragjalds verði fest til frambúðar. Í því sambandi má geta þess að á vegum fjármálaráðherra er starfandi starfshópur sem gera á tillögur fyrir 1. febrúar 2008 um heildarstefnu að því er varðar skattlagningu ökutækja og eldsneytis. Með heildarendurskoðun löggjafar á þessu sviði gefst tækifæri til að móta stefnu til frambúðar í þessum málaflokki. Hlutverk starfshópsins er að gera tillögur um samræmda skattlagningu ökutækja og eldsneytis sem hafi það að markmiði að hvetja til notkunar vistvænna ökutækja, orkusparnaðar, minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum, aukinnar notkunar innlendra orkugjafa og að fjármagna uppbyggingu og viðhald vegakerfisins auk þess að þjóna áfram sem almenn tekjuöflun fyrir ríkissjóð. Fjárhæð olíugjalds, m.a. gagnvart vörugjaldi af bensíni, er því eitt af þeim atriðum sem koma til skoðunar hjá starfshópnum.

Verði frumvarpið að lögum er áætlað að tekjur ríkissjóðs verði 580 millj. kr. lægri á ári en ella hefði orðið og hefur þegar verið reiknað með því í forsendum tekjuhliðar fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2008. Lögfesting frumvarpsins ætti því hvorki að hafa áhrif á tekjur né útgjöld ríkissjóðs umfram það sem þegar hefur verið gert ráð fyrir.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að lokinni þessari umræðu.