Olíugjald og kílómetragjald

Mánudaginn 19. nóvember 2007, kl. 16:06:10 (1854)


135. löggjafarþing — 27. fundur,  19. nóv. 2007.

olíugjald og kílómetragjald.

231. mál
[16:06]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er nú kannski ekki stórmál sem kallar á löng ræðuhöld. En ég vek athygli á því að hæstv. fjármálaráðherra er hér að leggja til að horfið verði frá tímabundinni framlengingu og að þetta verði varanlegt. Hann er að festa í sjálfu sér þessar nafntölur varanlega inn í lögin í staðinn fyrir tímabundna framlengingu eins og verið hefur hingað til þó að niðurstöður starfshópsins liggi ekki enn fyrir. Ég ætla ekkert að gagnrýna það í sjálfu sér því það hefur verið hálfvandræðalegt að koma hér alltaf með framlengingarfrumvörp. En það er svolítil mótsögn í því að gera það engu að síður áður en starfshópurinn skilar áliti og fara þá ekki bara hreinlega í að leita leiða til að tryggja þennan verðmun sem menn vilja væntanlega hafa á útsöluverði bensíns og dísilolíu hins vegar. Ég held að það sé ósköp ljóst hvernig það verður best gert. Það á að gefa sér muninn fyrst og síðan þarf að hafa reikniregluna þannig að tekið sé innkaupsverðið á báðum orkugjöfunum og ofan á það komi svo bensíngjald annars vegar og olíugjald hins vegar í krónum sem inniberi þennan mun.

Menn sátu nú einu sinni fastir í því að þetta var hlutfallsleg álagning, eins og menn einhverjir muna hér og það var auðvitað ekki gott kerfi þegar verðið stökk upp og þar með jukust skatttekjur ríkissjóðs gríðarlega. Það var ekki ætlunin og þess vegna færðu menn þetta yfir í fastar krónutöluupphæðir sem er auðvitað miklu betri aðferð við slíkar aðstæður þegar þetta er að sveiflast mikið til. Því hlýtur að vera hægt að útbúa reikniverkið einfaldlega þannig að tekjuöflunin sé fyrir fram ákveðin, verðbilið sé fast eða einhvern veginn sett inn í reiknireglurnar og þannig sé þetta útfært.

Aðrar tillögur starfshópsins (Forseti hringir.) koma svo væntanlega til með að hafa áhrif á öðrum sviðum, þ.e. í sambandi við skattlagningu mismunandi tegunda orkugjafa o.s.frv. (Forseti hringir.) og þurfa ekki í sjálfu sér að hafa nein áhrif á þetta.