Þingsköp Alþingis

Mánudaginn 03. desember 2007, kl. 20:53:44 (2521)


135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[20:53]
Hlusta

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er eiginlega agndofa yfir ræðu hv. þm. Ögmundar Jónassonar og ég virðist ekki nú frekar en áður hafa sama málskilning og hv. þingmaður. Hann talar í fyrsta lagi um að þetta sé frumvarp forseta en hér eru flutningsmenn fyrir utan hæstv. forseta þingflokksformenn allra annarra flokka en Vinstri grænna. Mér sýnist að það þýði að að baki þessu frumvarpi gætu verið 54 þingmenn í heildina á meðan Vinstri grænir eru níu og segja nei. Þá spyr ég: Hvert er lýðræðið? Ef fjórir flokkar ásamt forseta þingsins eru sammála frumvarpinu og vilja leggja það fram í þessari mynd en þingflokkur Vinstri grænna segir nei, hvert er þá lýðræðið? (Gripið fram í.)

Í öðru lagi leyfir hv. þingmaður sér að tala þannig a.m.k. til okkar þingmanna Sjálfstæðisflokksins að við völtum yfir allt og alla á meðan honum er svo tamt að tala um mannréttindi og hvernig fólk eigi að koma þokkalega fram hvert við annað, virða skoðanir og annað í þeim dúr. Ég spyr hv. þm. Ögmund Jónasson: Hvernig skilgreinir þú lýðræðið þegar að baki þessu frumvarpi eru allir flokkar á þingi nema Vinstri grænir?

(Forseti (ÁRJ): Forseti vill minna þingmenn á að beina máli sínu til forseta.)