Þingsköp Alþingis

Mánudaginn 03. desember 2007, kl. 23:07:09 (2533)


135. löggjafarþing — 35. fundur,  3. des. 2007.

þingsköp Alþingis.

293. mál
[23:07]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Hæstv. forseti. Ég vil af hálfu Frjálslynda flokksins lýsa yfir stuðningi við það frumvarp sem hér liggur fyrir en þingflokksformaður Frjálslynda flokksins er einn af flutningsmönnum þess. Þó er það svo að mér finnst mjög mikilvægt að leitað verði þeirra leiða sem færar eru til að málinu ljúki með þeim hætti að allir þingflokkar geti staðið að þeirri endanlegu lagasetningu sem um verður að ræða.

Mér finnst ástæða til að þakka hæstv. forseta fyrir að hafa haft frumkvæði að því að koma frumvarpinu fram og leiða þá vinnu sem hér um ræðir. Ég endurtek að æskilegt hefði verið ef það hefði getað gerst með tilstilli og vilja allra þingflokka en það verður að sjá til hvort það næst ekki við meðferð málsins í nefnd.

Ég get ekki séð annað þegar frumvarpið er skoðað en það eigi að geta leitt til mun skilvirkari vinnubragða en hingað til hafa verið viðhöfð á þinginu og er það ágætt. Spurningin er hvort ganga hefði mátt lengra á ákveðnum sviðum, hvort taka hefði þurft frekar fram með hvaða hætti ákveðnar stofnanir þingsins starfa, með hvaða hætti t.d. frumvörp eru lögð fyrir af hálfu framkvæmdarvaldsins, í hvaða búningi og með hvaða formerkjum. Hér hefur komið hver ræðumaðurinn á fætur öðrum og talað um nauðsyn þess að þingið hafi sterka stöðu og þá sérstaklega gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það er kannski eitt mesta vandamálið sem íslenska þingið á við að stríða að framkvæmdarvaldið hefur algert ofurvald í landinu.

Í raun mætti segja að hér sé með takmörkuðum hætti um þrískiptingu valds að ræða svo sem ætti að vera vegna þess að ráðherrar, fulltrúar framkvæmdarvaldsins, sitja sem kjörnir þingmenn og þeir hafa um langt árabil kosið að fela ákveðnum þingmönnum ýmiss konar umsýslustörf af hálfu framkvæmdarvaldsins sem gerir það að verkum að þá verður þingmaður ekki aðeins fulltrúi löggjafarvaldsins heldur er líka að hluta til kominn yfir borðið hinum megin til framkvæmdarvaldsins. Þar af leiðandi hefði ég talið æskilegt að gerð væru meiri skil á milli framkvæmdarvalds og löggjafarvalds, m.a. með því að ráðherrar ættu ekki sæti á Alþingi. Í annan stað að gerð yrði sú breyting í þingsalnum að ráðherrar sætu ekki andspænis þinginu heldur væri það með öðrum hætti þannig að þeir væru ekki settir í sérstaka og æðri stöðu gagnvart löggjafarvaldinu. Ég lít þannig á að þegar ráðherra gengur í þingsal í dag hætti hann að vera fulltrúi framkvæmdarvalds og gerist fulltrúi löggjafarvalds, hann sé með sömu réttindi og nýtur sömu virðingar og aðrir alþingismenn og á þar af leiðandi að taka sér stöðu sem slíkur en ekki sérstaka stöðu í þjóðþinginu sjálfu. En ég ítreka að ég hefði talið æskilegt að gerð yrði sú breyting að um leið og ráðherrar gerast handhafar framkvæmdarvalds láti þeir af störfum sem fulltrúar löggjafarvalds til að auka á skilin milli löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins.

Talað hefur verið um annars vegar starf í þingsal og hins vegar starf í nefndum og það er nú einu sinni svo að meðan menn halda í það íhaldssama viðhorf að hafa þetta þinghús og þennan þingsal þá eru möguleikarnir til að hafa sæmilega og vistvæna aðstöðu fyrir þingmenn í þingsal mjög takmarkaðir. Í sjálfu sér lít ég þannig á að þó að Alþingi Íslendinga sé íhaldssöm stofnun eins og þjóðþing eiga sjálfsagt að vera þá sé það tímaspursmál hvenær taka verður á því að búa þingið þannig að nauðsynlegir hlutir séu í þinghúsinu sjálfu og skrifstofur alþingismanna séu þar en ég get ekki séð að það væri skipulagsmálum í Reykjavík til framdráttar að ætla að koma hér upp þeim steypuklumpi á þingreitinn sem ætlaður er en það er annað mál.

Síðan er spurningin með hvaða hætti nefndir starfa og ég verð að segja það sem nýr þingmaður að ég er mjög hugsi yfir því hvernig nefndir þingsins starfa. Ég ætlast til þess að í nefndum þingsins sé fjallað um löggjafarmálefni þannig að þau frumvörp sem berast nefndunum séu skoðuð ítarlega, að fram fari virk umræða í nefndunum sjálfum um frumvörpin en mér virðist sem meginþunginn og megináherslan sé sú að kalla til fólk fyrir nefndina, í sumum tilvikum fólk sem á ekkert erindi til að fjalla um þau löggjafarmálefni sem þar er um að ræða, a.m.k. lítið erindi, og getur ekki í mörgum tilvikum fært neina þekkingu til nefndarinnar sem þar er ekki þá þegar til staðar.

Þegar talað er um tíma og að gera Alþingi að fjölskylduvænni stofnun tel ég að það sé ekki neitt markmið í sjálfu sér því að það hlýtur að vera meginmarkmiðið með starfi Alþingis að löggjafarvaldið sé virt, þetta sé sá farvegur lýðræðis sem Alþingi á að vera og þeir sem gefa kost á sér til þingstarfa verða að undirgangast þær skyldur sem í því felast. Ég verð að segja að þar sem meiningin er að taka af sem mest kvöldfundi þá finnst mér gaman að geta þó verið á síðustu metrunum í því og á sínum tíma þegar ég kom inn sem varaþingmaður háttaði iðulega þannig til að fundir stóðu lengi fram eftir og ég minnist þess ekki að það hafi verið leiðinlegustu fundir sem ég hef setið á Alþingi. Ég lít þannig á að þingmenn verði að taka því þegar þeir eru á annað borð kjörnir til þessara starfa að þeim beri að sinna þeim jafnvel þó að orðið sé áliðið. Hitt er annað mál að það er í sjálfu sér alveg nauðsynlegt að gera störf þingsins sem allra skilvirkust.

Varðandi nefndirnar er tvennt sem mér finnst nauðsynlegt að gera að umtalsefni hér. Í fyrsta lagi tel ég nauðsynlegt að undirbúningur framkvæmdarvaldsins við lagasetningu þurfi að vera annar og mun betri en nú er, þ.e. að þar sé vandað til löggjafar sem máli skiptir og þá er ég að tala um löggjöf þar sem um er að ræða verulega breytingu á lagaatriðum sem fyrir hendi eru, að af hálfu framkvæmdarvaldsins sé látin fara fram ákveðin umræða og skoðanaskipti við hagsmunaaðila sem verði síðan lögð fram við framlagningu frumvarpsins fyrir Alþingi. Þannig væri ákveðnum hluta vinnuferlisins lokið og þegar fagnefndin tæki við af hálfu Alþingis færi tíminn fyrst og fremst í það að vinna að og skoða með hvaða hætti og hvernig þau lagaatriði sem fyrir nefndina hafa verið lögð eru og síðan væru kallaðir til þeir aðilar sem geta skipt máli, upplýst mál og varpað nýju ljósi á þau atriði sem um er fjallað.

Í einu tilviki þar sem ég sit í nefnd verð ég að segja að þetta hefur gengið með ágætum, það var varðandi ný fyrningalög. Ég tel að nefndin sem fjallaði um þau hafi gert það eins og æskilegt hlýtur að teljast með störf nefnda við lagasetningu. Í sumum tilvikum er það þannig og umboðsmaður Alþingis hefur bent á það að Alþingi hafi ekki vandað sig nægilega vel við lagasetningu og það er ekki vansalaust fyrir þjóðþingið. Að löggjafarstarfinu sé sinnt með þeim hætti sem verður að ætlast til að Alþingi geri er sú skylda sem hvílir ekki síst á formönnum nefndanna, fastanefnda Alþingis og forseta þingsins og síðan getur enginn þingmaður vikið sér undan ábyrgð á því.

Við vorum að fjalla um það fyrir nokkru að við værum í þeim hópi sem skipuðum efsta sæti á lista Sameinuðu þjóðanna í ákveðnum tilvikum, sem er ágætt. Það hlýtur þá að vera markmið okkar sem sitjum á Alþingi að fylgja því eftir sem þjóðin hefur áunnið sér á öðrum vettvangi og vera líka í fyrsta sæti, þannig að það séu ekki fleiri lög hér sem þurfa að koma til endurskoðunar vegna þess að vinna löggjafarvaldsins sé gölluð, heldur mun færri en í nágrannalöndum okkar. Ég lít svo á að með breytingu á þingsköpum Alþingis, með því að gera starf Alþingis skilvirkara eða freista þess þá séum við líka að leita leiða til þess að vanda vinnu við setningu löggjafarinnar af því að það getur aldrei verið markmið í sjálfu sér að létta af einhverri umræðu eða draga úr umræðum í þingsal. Meginatriðið, höfuðatriðið, aðalatriðið er það að hér verði um skilvirka, góða löggjafarstarfsemi að ræða.

Ég tel það vera til bóta og er sammála þeim atriðum í frumvarpi því sem hér liggur fyrir, að lengja starfstíma Alþingis. Ég tel að hið svokallaða langa sumarfrí þingmanna sé ekki eðlilegt eins og nú háttar til í þjóðfélaginu og mér finnst þau ákvæði vera til bóta. Þá er spurningin sem við höfum mikið fjallað um og þingmenn Vinstri grænna hafa farið mikinn í ræðustól og í fjölmiðlum um það hvort verið sé að skerða málfrelsið. Það kann vel að vera að þeim finnist eitthvað úr því dregið en ég bendi á að miðað við þau ákvæði sem eru í 12. gr. samanber 80. gr. laganna þá er heimilt tvívegis á þingi að lengja ræðutíma þannig að almennur þingmaður hefur þó samanlagðan ræðutíma við meðferð málsins upp á 140 mínútur eða rúmar tvær klukkustundir og flutningsmaður í 300 mínútur eða 5 klukkustundir. Skyldi nú sumum finnast að það væri ærið nokkuð sem þar væri þó úr að moða með þann mikla tíma sem um er að ræða.

Ég get bent á að við málflutning fyrir Hæstarétti setur Hæstiréttur lögmönnum skorður. Í Hæstarétti Bandaríkjanna er við það miðað að lögmenn þurfa að hafa komið öllum þeim sjónarmiðum sem þeir hafa fram að færa við réttinn á 30 mínútum. Þegar þeim 30 mínútum lýkur er slökkt á hljóðnemanum og það er ekkert meira um það að ræða og algjör undantekning ef lengri tími er heimilaður. Það er að sjálfsögðu annað þegar við erum að fjalla um ræðuhöld fyrir dómstólum eða á löggjafarþingi en ég bendi á að það er samt sem áður í þeim tilvikum líka oft og tíðum um flókin mál að ræða.

Það kann vel að vera að einhverjum finnist það ekki nóg að þingflokkur geti beðið tvívegis um lengda umræðu. Þá er spurningin hvort einhver breyting varðandi 12. gr. í frumvarpinu geti orðið til þess að samkomulag náist til að koma frumvarpinu áfram með samþykki allra þingflokka.

Varðandi spurninguna um bætta starfsaðstöðu þingmanna þá fór ég og skoðaði niðurstöðu frá kjararáði, síðustu birta launavísitölu með síðustu hækkun æðstu embættismanna. Þá kom í ljós að á sama tíma og næstu 12 mánuði á undan höfðu laun almennt hækkað um 11% en laun embættismanna og þjóðkjörinna fulltrúa sem heyra undir kjararáð höfðu hækkað um tæplega 5,6%, þ.e. 2,5% 1. janúar og 3% 1. júlí, þetta var árið 2006. Það getur því varla verið mikill hvati ef laun æðstu embættismanna, þar meðtalinna þingmanna, hækka um helming miðað við það sem launakjör hækka í landinu almennt. Einhverjir mundu kannski segja og við þekkjum það markaðshyggjufólkið, að þetta er alltaf spurning um framboð og eftirspurn og þess vegna, ef um slíkt mætti ræða, gætu laun þingmanna lækkað. En þetta er líka spurning um það hvers konar fólk og hvaða gæði starfa við erum að sækjast eftir.

Það er talað um bætta starfsaðstöðu þingmanna og ég velti því fyrir mér t.d. í framhaldi af ræðu hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur þar sem hún fjallaði um að með þessu væri verið að tala um að þingmenn landsbyggðarkjördæma fengju aukna aðstoð. Í greinargerð með frumvarpinu segir m.a., með leyfi forseta:

„Samhliða frumvarpi þessu er samkomulag milli þingflokka, sem að því standa, um að bæta starfsaðstöðu þingmanna, ekki síst stjórnarandstöðuþingmanna.“

Þarna er um að ræða marga ágætishluti eins og t.d. að aðstoða minni hluta í nefndum og efla eftirlitshlutverk nefnda. Ég verð að taka það sérstaklega fram að mér finnst það mjög gott sem kemur fram í þessu frumvarpi um það að ákveðinn lítill hluti nefndarmanna geti óskað eftir því að ráðherra komi til að gefa skýringar á nefndafundum, mér finnst slíkt horfa mjög til bóta varðandi starfsemi nefndanna.

Í öðru lagi að formenn stjórnarandstöðuflokka fái aðstoðarmenn sem er líka verulega til bóta og ég get líka tekið undir þau sjónarmið sem koma varðandi það að auka alþjóðastarf þingmanna og bæta aðstöðu þingflokka að því sem þar kemur fram varðandi ritaraþjónustu og annað.

Síðan koma aðrir hlutir sem hljóta að orka mjög tvímælis. Ég vil leyfa mér að vitna í það sem stendur í greinargerðinni en þar segir, með leyfi forseta:

„Í tengslum við kjördæmabreytinguna 1999 var rætt um að þingmenn Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæma fengju sérstaka aðstoðarmenn eða stöðuhlutfall aðstoðarmanns með hliðsjón af því hve stór þessi kjördæmi eru að flatarmáli og erfið yfirferðar af þeim sökum. Niðurstaðan varð hins vegar sú að fá stjórnmálaflokkunum fé til ráðstöfunar í þessu skyni, en ljóst er að það fé fer að mestu í almennan rekstur flokkanna.“

Við skulum átta okkur á einu í þessu sambandi, hér er verið er að segja: Það voru markaðir ákveðnir fjármunir til þess að þingmenn þeirra þriggja kjördæma sem þarna eru nefnd, þ.e. Norðaustur-, Norðvestur- og Suðurkjördæmi, fengju ákveðna fjármuni og það var varið ákveðnum fjármunum til þingflokkanna í því sambandi. Hvað er verið að segja hér? Að fjármunirnir hafi ekki verið notaðir eins og átti að nota þá og hvað á þá að gera? Þá snýst málið um það að nú á að leggja út enn þá meiri peninga, og til hvers? Til að aðstoða þingmenn úr þeim kjördæmum sem hér ræðir um, þ.e. úr Norðvestur-, Norðaustur- og Suðurkjördæmum. Það er talað um að þeir fái sem svari einum þriðja stöðugildis sem aðstoð við sig en spurningin er hvaða bætta stöðu þingmenn annarra kjördæma fá. Þingmenn Reykjavíkurkjördæma og Suðvesturkjördæma, kjördæmanna þar sem eru flestir kjósendur á bak við hvern einasta þingmann, þeir eiga alls ekkert að fá. Ég verð að segja að mér finnst þetta atriði gersamlega óásættanlegt.

Það er einu sinni þannig að þingmenn eru þjóðkjörnir. Ég lít á mig sem þingmann þjóðarinnar en ekki ákveðins landshluta. Ég lít svo á að hlutverk þingmannsins sé að setja lög fyrir þjóðina en ekki að sinna sérhagsmunum einstakra byggðarlaga eða svæða. Þingmenn eru kjörnir af fólki en ekki að flatarmáli, ökrum eða engjum eða túnum eða húsum. Þingmenn eru þjóðkjörnir og að sjálfsögðu á að miða við það, það er það eina sem hægt er að miða við ef meta á stöðu þingmanna. Ég tel mjög mikilvægt að við hættum að líta á okkur sem sérstaka fulltrúa ákveðinna sjónarmiða, atvinnuhagsmuna eða byggðarlaga en lítum fyrst og fremst á okkur sem þingmenn þjóðarinnar, sem fulltrúa þjóðarinnar til að setja þjóðinni skynsamlega löggjöf og koma og þoka málum þannig að það geti orðið þjóðinni sem heild sem best.

Þegar verið er að meta og skoða hvaða aðstoð eigi að veita þingmönnum þá finnst mér að við eigum að líta þannig á að þingmenn njóti jafnræðis. Ég tel það í raun ekki ganga upp að þingmenn hafi mismunandi aðstöðu. Ef svo er get ég ekki séð að ákvæðum jafnræðis sé fullnægt því að jafnræðisreglan hlýtur að gilda jafnt um þingmenn sem aðra borgara þessa þjóðfélags. Ættu sumir þingmenn að vera undanþegnir því að njóta jafnræðis við einhverja aðra? Ég get ekki með nokkru móti séð að það geti gengið og út af fyrir sig gæti það verið verðugt verkefni til að fara með og fjalla um hjá Mannréttindadómstóli Evrópu, hvort slík lagaákvæði eða slíkir starfshættir gætu gengið, að við árið 2008 á Alþingi Íslendinga settum sérreglur fyrir flatarmál en ekki fólk. Það er fólk sem kýs þingmenn. Þingmenn eru þjóðkjörnir.

Mér finnast sjónarmiðin og hugleiðingarnar sem koma fram í greinargerðinni einhver endurómur aftan úr grárri forneskju, einhver viðmið varðandi stöðu þingmanna þegar þeir sáu um pakkasendingar milli landshluta sem er löngu aflagt. Ég veit ekki til annars, hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir, en þokkalegt símasamband og tölvusamband sé komið um allt land og því er álíka auðvelt fyrir þingmenn að ná sambandi við kjósendur sínar hvar svo sem þeir eru á landinu. Ég geri mér grein fyrir því að eins og störf þingmanna hafa þróast þá telja sumir þingmenn nauðsynlegt að fara langar vegalengdir til að hitta fólk persónulega en láta sér ekki nægja að tala einungis við fólk og afla sér þannig upplýsinga og það er í sjálfu sér bara ákveðin starfsvenja sem fólk velur sér.

Í þéttbýlinu má fólk hafa samband við kjósendur sína, það er venjulega ekkert sérstaklega auðveldara en almennt gerist því að það eru þessir almennu miðlar sem um er að ræða. Möguleikar á því að ná sambandi með rafrænum hætti ásamt nútímafjölmiðlun hefur gert það að verkum að þingmennirnir eru í miklu jafnari stöðu en þeir voru áður.

Ég hef ekki gert úttekt á því hvort ég svara fleiri kjósendum sem eru af Norðvesturlandi eða í Suðvesturkjördæmi í því bréfaflóði sem ég fæ til mín á hverjum degi. En ég reikna með því að það skiptist nokkuð hlutfallslega eftir landshlutum og að þannig sé það með marga þingmenn. Ég skal ekki draga úr því að sjálfsögðu skiptir miklu máli fyrir þingmenn að geta verið í góðu sambandi við kjósendur sína og þess vegna persónulegu sambandi. Þess vegna eiga þingmenn kost á því að ferðast um landið með ódýrum hætti og skattgreiðendur standa undir kostnaði við slík ferðalög. Á þá núna sækja meiri peninga í vasa skattgreiðenda til að standa straum af því sem átti að vera búið að sjá fyrir? Mér finnst þungamiðja þessa máls vera að hér er um virðingu Alþingis að ræða og að skilvirkri löggjafarstarfsemi sé sinnt með eðlilegum hætti.

Þingmenn eiga kost á sérfræðiþjónustu við meðferð ýmissa mála þar sem þess gerist þörf. Mér finnst hafa orðið mjög ánægjuleg breyting á Alþingi frá því að ég kom hér fyrst að því leyti að starfsfólk þingsins er mjög hæft og veitir þingmönnum mjög góða aðstoð í mörgum málum og ég satt að segja varð undrandi yfir því hvað þetta hafði breyst mikið á þeim tíma sem leið frá því að ég sat hér sem varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og þangað til ég kom á þing í sumar en það er bara af hinu góða. En það geta komið upp hlutir og gera raunar nokkrum sinnum á hverju þingi þar sem þingmaður þarf nauðsynlega að leita sér sérfræðiaðstoðar sem hann á yfirleitt ekki kost á innan þingsins. Þá er spurningin: Með hvaða hætti gerir hann það? Á hann einhverja kosti? Hann getur átt kost á því að gera það með því að einhverjir í hans flokki vinni sjálfboðavinnu við það að útfæra þá sérfræðivinnu sem annars væri unnin. Ef það er ekki fyrir hendi þarf hann að greiða það sjálfur úr eigin vasa.

Mér finnst koma til greina að gefa þingmönnum kost á því að geta fengið fjárveitingar til þess að afla sér ákveðinna skilgreindra upplýsinga vegna meðferðar mála eða undirbúnings mála þegar þeir geta ekki sótt aðstoðina hjá starfsfólki Alþingis. Það gæti afsakað fjárveitingu í þessu skyni til einstakra þingmanna en ekki á grundvelli flatarmáls kjördæmanna heldur á grundvelli þess að við viljum vinna að skilvirkri lagasetningu. Við viljum líka vera númer eitt þegar kemur að því að það starf sem Alþingi Íslendinga vinnur er metið.

Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til að fara mörgum orðum til viðbótar um það frumvarp sem hér liggur fyrir enda er ég búinn að lýsa yfir stuðningi við það að meginstefnu til. Mér finnst þó að það hljóti að koma til skoðunar í fagnefndinni sem fær frumvarpið til meðferðar að athuga hvort hægt er að gera ákveðin ákvæði frumvarpsins ákveðnari, ákvæði sem núna eru komin undir geðþóttaákvörðun forseta í ýmsum málum. Ég sé ekki ástæðu til að rekja þau atriði, það gefst tækifæri til þess þegar málið kemur til nefndar.

Mér finnst skipta verulega miklu máli, hæstv. forseti, að reynt verði svo sem mögulegt er að ná samkomulagi um það frumvarp sem hér er um að ræða þannig að lögum um breytingar á þingsköpum Alþingis geti allir þingflokkar staðið þegar málið kemur til endanlegrar afgreiðslu.