Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Þriðjudaginn 04. desember 2007, kl. 14:49:18 (2574)


135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:49]
Hlusta

Guðni Ágústsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er útúrsnúningur af hálfu hv. þingmanns að við framsóknarmenn viljum engu breyta. Við höfðum undirbúið það og rætt í þeirri ríkisstjórn sem við sátum í að breyta Stjórnarráðinu. Hæstv. forsætisráðherra sagði þá fyrir kosningar að rétt væri að leita samkomulags við stjórnarandstöðuna og tilkynnti okkur að ekkert væri til staðar um breytingar þannig að þá var hægt að hafa samkomulag við stjórnarandstöðu um breytingarnar. Síðan gerist það á Þingvöllum að tveir stjórnmálaforingjar semja um þessar breytingar.

Sjálfstæðismenn sögðu mér hiklaust hér á göngum í vor og sumar að þeir mundu aldrei kyngja þessu máli og ég spyr því hvort fullkomin samstaða sé innan þess flokks eins og þeir hafa talað. Við framsóknarmenn vildum breyta Stjórnarráðinu, stækka ráðuneytin, fækka þeim, færa verkefni saman, en við gerum það ekki með því að höggva eitt ráðuneyti niður og láta annað halda sér. Hér er mjög óskipulega að málum unnið. Það er ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn hélt því fram fyrir nokkrum árum í kringum slíkar breytingar að landgræðsla og skógrækt mættu alls ekki fara undir umhverfisráðuneytið, það væri verkefni landbúnaðar. Þegar ljóst er orðið að landshlutabundnu verkefnin verða í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti botnar enginn maður í því af hverju fagmenn Skógræktarinnar á Egilsstöðum og Mógilsá fara ekki sömu leið. Þeir munu klippa gat á pokana á leiðinni til umhverfisráðuneytisins og ráða sig til starfa í landshlutabundnu verkefnin. Þar eru þeir ráðgjafar og vísindamenn.

Hér er vondur bandormur, ljótasti bandormur sögunnar sem ein ríkisstjórn hefur sett fyrir Alþingi og það er hæstv. ríkisstjórn sannarlega til skammar. Næsta ríkisstjórn mun í samráði við stjórnarandstöðu þá endurskoða þessi mál frá grunni.