Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Þriðjudaginn 04. desember 2007, kl. 14:57:37 (2578)


135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[14:57]
Hlusta

Frsm. meiri hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ekki hefur farið fram formlegt stjórnsýslumat á frumvarpinu en vissulega er um að ræða breytingu sem er að umfangi töluvert mikil, þ.e. verið er að breyta mörgum lagaákvæðum á mörgum sviðum. Breytingarnar eru í mörgum tilvikum þó ekki svo miklar vegna þess að fyrst og fremst er verið að breyta nafni þess ráðherra sem hefur forræði yfir málaflokknum. Ekki er gert ráð fyrir, nema á örfáum sviðum, að einhverjar breytingar verði á starfsemi stofnana umfram það að færa eina deild eða einn starfsmann á milli ráðuneyta þannig að við skulum ekki gera svo mikið úr þeim þætti.

Vissulega er hægt að missa kostnað úr böndum við allar breytingar sem verða, en á það verður lögð áhersla að svo verði ekki í þessu tilviki heldur að menn haldi sig við þær fjárveitingar sem ætlaðar eru til þessara verkefna. Þær fjölmörgu breytingar sem samþykktar voru á fjárlagafrumvarpinu í gær við 2. umr. fjárlaga miða að því að fjármunir flytjist með verkefnunum til nýrra ráðuneyta en ekki verði breytingar á þeim. Það er sá rammi sem við störfum eftir. Við erum ekki að tala um aukinn kostnað nema menn missi tökin á útgjöldunum og það þurfum við vissulega að varast.