Tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands

Þriðjudaginn 04. desember 2007, kl. 16:24:08 (2585)


135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tilfærsla verkefna innan Stjórnarráðs Íslands.

130. mál
[16:24]
Hlusta

Frsm. minni hluta allshn. (Atli Gíslason) (Vg) (andsvar):

Já, enn er mikils spurt, herra forseti. Ég held að það verði að skipta um ríkisstjórn til að unnt sé að ganga frá þessu máli svo að vit sé í.

Engar breytingar á Stjórnarráðinu — það hefur aldrei verið viðkvæði Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. (Gripið fram í: Hvað viljið þið?) Við viljum hins vegar vinna með vönduðum hætti án þess að troða á starfsfólki af tillitsleysi eins og gert er. Það viljum við gera. Það er algjörlega ljóst varðandi umhverfisvernd og atvinnugreinarnar að þær hafa ekki rekist í landinu. Unnin hafa verið stórfelld, óafturkræf spjöll á landinu í krafti skammtímahugsunar, því miður. (Sjútvrh.: Á það við Skógræktina?) Það getur átt við skógræktina, já, en það á ekki við hana, það hafa bara komið upp undantekningar. Ég get nefnt dæmi um það en almennt hefur skógræktin, hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, staðið sig einkar vel og ég er stoltur af því. En þar geta líka orðið slys. (GÁ: Vísindamennirnir eru farnir.)

Ég hallast að því að atvinnugreinar bænda og annarra eigi að vera í landbúnaðarráðuneyti. Skógræktin er í dag atvinnugrein að stórum hluta eða mun stærri hluta en svo að menn séu að planta eingöngu til ánægju og yndisauka. Þetta er orðin atvinnugrein, þetta er stór hluti af tekjum bænda og verður það í framtíðinni. Þetta er sprotagrein hjá bændum. (Gripið fram í: Þúsund skógræktarbændur.) Þúsund skógræktarbændur, auðvitað eiga þeir heima með sinn landbúnað í landbúnaðarráðuneytinu. Skilningsleysi hæstv. ráðherra á þessum málaflokki veldur mér vonbrigðum.