Tekjuskattur

Þriðjudaginn 04. desember 2007, kl. 21:21:50 (2620)


135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tekjuskattur.

290. mál
[21:21]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fjármálaráðherra fyrir ítarlega ræðu sem var upplýsandi um þetta mál. Þó er talsvert undir í þessu frumvarpi ef betur er að gáð. Ég vil af því tilefni spyrja hæstv. ráðherra hvort það beri að skilja orðalag fremst í greinargerð á bls. 3 í frumvarpinu þannig að það sé endanleg niðurstaða ríkisstjórnarinnar að hrófla ekki við skattleysismörkum við afgreiðslu fjárlaga og aðrar tengdar lagabreytingar hér fyrir áramót, þ.e. eins og þarna stendur:

„Persónuafslátturinn mun því að óbreyttu hækka í takt við þá forsendu í upphafi næsta árs án sérstakrar lagabreytingar.“

Er þetta útskýringarorðalag eða er þetta orðalag sem gefur í skyn að hæstv. ríkisstjórn hafi einhver áform um að hækka persónuafsláttinn meira? Tæpast á að skerða hann þannig að hann haldi ekki í við verðlag. Það eru auðvitað veruleg tíðindi ef það er endanleg niðurstaða hjá ríkisstjórninni að það verði ekki hróflað við skattleysismörkunum, þau hækki ekki neitt. Efast má um að þetta dugi til að halda í við verðlagið eins og verðbólguþróunin er að læðast aftan að mönnum núna.

Nú man ég ekki nákvæmlega loforð Sjálfstæðisflokksins, ef einhver voru, um skattleysismörk en svo mikið man ég að Samfylkingin hafði fögur orð um að gera þar verulega bragarbót. Það vill svo til að það eru a.m.k. tveir hæstv. ráðherrar í salnum sem geta staðfest þetta. Það var að vísu svolítið mismunandi eftir því hvar í kosningabaráttunni Samfylkingin var stödd og hverjir töluðu fyrir hana hversu vel hún ætlaði að gera. En menn muna eftir loforðum og tölum, bæði að 100 þús. kr. væri náttúrlega algert lágmark og 120 þús. kr. man ég eftir líka á fundi. Síðan mun í Borgarnesi — það er svo undarlegt þegar Samfylkingin kemst til Borgarness að þá verða alltaf tíðindi — mun einn af vöskustu frambjóðendum Samfylkingarinnar hafa lofað 150 þús. kr. skattleysismörkum. Það gerði hv. þm. Ellert Schram á fundi með öldruðum í Borgarnesi og að því eru mörg vitni.

Þess vegna hlýtur að vekja verulega athygli ef þetta er niðurstaðan, að Samfylkingin ætli ekki að standa við þetta kosningaloforð frekar en svo mörg önnur sem hér hefur borið á góma, t.d. í tengslum við fjárlagafrumvarpið. Fyrsta spurningin er því ósköp einfaldlega þessi: Er þetta til staðfestingar því að það sé endanleg niðurstaða ríkisstjórnar, stjórnarflokkanna og meiri hluta þeirra, að skattleysismörk verði ekkert hækkuð á þessu ári? Ég kalla það að sjálfsögðu ekki hækkun að þau taki verðbólgu- eða verðlagsuppfærslu.

Í öðru lagi vil ég spyrja lítillega um aðra liði, þ.e. sjómannafrádráttinn sem á að taka hækkunum samkvæmt sömu tölu, 4,8%, sem mundi vera áætluð tólf mánaða hækkun vísitölu neysluverðs miðað við mælingu hennar í desember. Hins vegar vekur athygli að viðmiðunarfjárhæð barnabóta á einungis að hækka um 3,2%. Þar er allt í einu notað orðalagið „í samræmi við áætlaða meðalhækkun á vísitölu neysluverðs“, skerðingarmörkin liðlega 8% í samræmi við meðalhækkun launavísitölu. Hverju sætir að viðmiðunarfjárhæðir barnabóta hækka þarna um nokkuð lægri prósentu en hinar viðmiðunarfjárhæðirnar, þ.e. persónufrádráttur þá og sjómannaafsláttur? Vildi hæstv. fjármálaráðherra vera svo vinsamlegur að skýra það?

Þriðja atriðið sem mig langar að gera að umtalsefni er lagabreyting um greiðslu barnabóta til allra þeirra sem njóta réttinda innan Evrópska efnahagssvæðisins og reyndar í Færeyjum, sem væntanlega er á grundvelli Hoyvíkur-samningsins: Er þetta virkilega til staðfestingar á því sem mig hefur lengi grunað, þykist reyndar hafa upplifað sjálfur, að íslensk stjórnvöld hafi allt frá 1994 og fullgildingu EES-samningsins vanefnt að tryggja þessi réttindi? Mér er nær að halda að svo sé. Svo mikið veit ég, og tala af eigin reynslu, að á árumum 1995–1997 var framkvæmd þessara mála í algeru skötulíki af hálfu íslenskra stjórnvalda og börn Íslendinga búsett erlendis tímabundið fengu ekki barnabætur frá íslenska ríkinu. Þetta var svo mikið hneyksli að a.m.k í. einu ef ekki tveimur hinna Norðurlandanna greiddu viðkomandi lönd þann hlutinn sem átti að koma frá Íslandi vegna þess að þar nálgast menn þetta út frá réttindum fjölskyldnanna, rétti barnanna, og niðurstaða skattayfirvalda, t.d. í Svíþjóð, var sú að börnin eða fjölskyldur þeirra ættu ekki að missa þennan rétt sinn þótt Íslendingar hefðu ekki mannað sig upp í að framfylgja þessu, raunar bæði ákvæðum hins norræna samnings og samningsins um Evrópska efnahagssvæðið eftir að hann kom hér til sögunnar.

Hvers vegna þarf lagabreytingu svo seint sem á árinu 2007 ef framkvæmdin á þessum hlutum hefur verið í lagi? Það er svo sem auðvitað hægt að segja að betra sé seint en aldrei og það eigi að fagna því að loksins eigi að koma þessu í lag en ég held að menn eigi þá að viðurkenna, ef svo er, að þetta hafi ekki verið framkvæmt eins og til stóð af hálfu íslenskra yfirvalda. Það er auðvitað stórkostlega ámælisvert að þær reglur og lög samræmist ekki reglum Evrópusambandsins að þessu leyti, um rétt til barnabóta og beitingu almannatryggingareglna gagnvart launþegum og fjölskyldum þeirra.

Hver er grunnreglan? Jú, hún er ósköp einföld, hefur verið svo síðan 1994 og hefur lengi verið svo samkvæmt gamla norræna samningnum. Hún á að vera sú að menn missi einskis af réttindum sínum þó að þeir flytjist búferlum innan svæðisins. Þannig á það að vera. Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra: Hefur hann upplýsingar undir höndum um hvernig þessu verði hagað? Hvað er á bak við þetta dularfulla orðalag þar sem einhvers staðar er tekið svo til orða að það eigi að „tryggja þetta betur“ og það hafi „ákveðin óvissa ríkt“? Er með þessu orðlagi reynt að breiða yfir það að þetta hafi aldrei verið í lagi af hálfu Íslendinga og aldrei framkvæmt? Væri þá ekki heiðarlegra að segja það?

Ég þekki þetta af eigin raun. Það er að vísu langur tími síðan en ég veit að þessar reglur voru ekki virkar. Þá var því ekki borið við að það vantaði lagastoð eða að þetta væri eitthvað óljóst því að þetta var tekið í lög strax með fullgildinu, í framhaldi að fullgildingu EES-samningsins. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið áður í lögum heimilt gagnvart norræna svæðinu að þetta mætti gera. Ég held að ég muni það alveg örugglega rétt að í lögum um tekju- og eignarskatt, t.d. þeim kafla sem snýr að greiðslu barnabóta, hafi verið heimildir sem vísuðu til ákvæða EES-samningsins. Sé þetta rétt er það alveg með endemum að tekið hafi talsvert á annan áratug að koma þessu í lag og nú sé loks reynt að gera bragarbót á því með því að styrkja lagastoð þessara ákvæða, sem mér er til efs að hafi þurft í raun, einfaldlega vegna þess að ég held að það hafi verið framkvæmdin hér heima sem hafi verið í molum hjá íslenskum yfirvöldum.

Enginn virtist kannast neitt við neitt á sínum tíma þegar ég fór að grafast fyrir um þessi mál. Skattstjórar umdæmanna vísuðu á yfirmenn sína og fjármálaráðuneytið og eftir dúk og disk varð það eiginlega niðurstaðan að þetta væri einfaldlega ekki komið til framkvæmda. Ég held að það væri fróðlegt að fá svör um þetta, virðulegi forseti, frá ráðherra. Ég ætla ekki að orðlengja um þetta en bíð spenntur eftir því að heyra hin pólitísku tíðindi sem sem væntanlega koma til með að felast í svari ráðherrans.