Tekjuskattur

Þriðjudaginn 04. desember 2007, kl. 21:32:04 (2621)


135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tekjuskattur.

290. mál
[21:32]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi er um sérstök ákvæði að ræða hvað varðar hækkun á persónuafslætti sem eru miðuð við verðbólgu síðustu 12 mánuði og þótti rétt að láta það einnig taka yfir sjómannaafsláttinn, svo tengdur sem hann er persónuafslættinum. Hins vegar þótt rétt að halda áfram með hefðbundna viðmiðun á öðrum þáttum sem miða við breytingar á meðaltalsverðlagi á milli ára. Til lengri tíma litið ætti það að koma út á það sama.

Hv. þingmaður spurði hvort búið væri að taka ákvörðun um að hækka ekki persónuafsláttinn. Í því sambandi vitnaði hann til orðalags til útskýringar á því að til þess að það breyttist þyrfti að koma til lagabreyting. Ekki stendur til af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja fram slíkt lagafrumvarp nú.

Varðandi að réttindi barna, sem greiða má barnabætur með, séu betur tryggð, eru lögin í dag þannig að bæði framfærandi og barn þurfa að vera tryggð á grundvelli almannatryggingalaga til þess að hægt sé að greiða barnabætur. Með frumvarpinu verður því breytt þannig að einungis framfærandinn þarf að vera tryggður á grundvelli almannatryggingalaga en ekki barnið líka, eins og væri ef barnið væri búsett á Íslandi. Ef barn er hins vegar búsett annars staðar er það ekki tryggt á grundvelli almannatryggingalaganna. Ég vona að mér hafi tekist að útskýra það. Eftir sem áður getur vel verið rétt, frú forseti, að við hefðum átt að vera búin að gera þá breytingu fyrir löngu síðan.