Tekjuskattur

Þriðjudaginn 04. desember 2007, kl. 21:34:20 (2622)


135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tekjuskattur.

290. mál
[21:34]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það staðfestir sem sagt að barnabæturnar munu hækka minna en skattleysismörk eða persónufrádráttur og sjómannafrádráttur og jafnframt að valin er sú viðmiðun sem leiðir til minni hækkunar þar. Það er augljóst mál að við þessar aðstæður virðist stefna í að þær rýrni að verðgildi miðað við það sem lagt er til. Verið getur að það komi jafnvel eða betur út við einhverjar aðrar aðstæður og annars konar verðbólguþróun þegar öðruvísi stendur á árinu en virðist gera núna og munar þarna 1,6%. Þær rýrna þess vegna talsvert.

Í öðru lagi var staðfest, og þarf þá væntanlega ekki frekari vitna við og sitja hér líka þögulir hæstv. ráðherrar Samfylkingarinnar, að ekki á að lyfta skattleysismörkunum um eina einustu krónu umfram áætlaða verðbólgu á næsta ári. Það eru þá öll afrekin sem menn ætla að ráðast í eða vinna í framhaldi af sínum digru kosningarloforðum um mikla hækkun skattleysismarka.

Í þriðja lagi varðandi réttindi fjölskyldna til bótagreiðslna, óháð búsetu innan Evrópska efnahagssvæðisins, er mér nær að halda að í svari ráðherra blundi í raun staðfesting á því sem ég óttaðist, að framkvæmdin hafi verið í skötulíki allan tímann síðan samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið var gerður og guð má vita hve lengi gagnvart norræna markaðnum. Málið, eins og ég þekki til, snýst ekki aðeins um erlenda ríkisborgara, t.d. sem vinna hér, eru skattgreiðendur en eiga börn á sínu framfæri erlendis. Ég held að það hafi líka bitnað á börnum Íslendinga búsettum erlendis tímabundið, þótt fyrirvinnan eða sá sem hér væri skattskyldur byggi á Íslandi. Ég held því að íslenskir ríkisborgarar (Forseti hringir.) hafi orðið af rétti sínum í þeim efnum í stórum stíl.