Tekjuskattur

Þriðjudaginn 04. desember 2007, kl. 21:45:49 (2624)


135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tekjuskattur.

290. mál
[21:45]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég minnist vel þeirrar umræðu sem hv. þingmaður vitnaði til í lok þingsins í vor. Ég minnist þess reyndar ekki að mér hafi verið svarafátt. Ég man ekki betur en ég hafi svarað hv. þingmanni fullum hálsi með talnalegum rökum um það hversu mjög svo kjör barnafjölskyldna hefðu batnað í tíð ríkisstjórnarinnar. En við skulum ekki deila um það núna.

Hins vegar varðandi spurningu hans um hvað hefði borið á góma við ríkisstjórnarborðið og við gerð fjárlaganna þá held ég að hv. þingmaður geri sér fullkomna grein fyrir því að það er engan veginn við hæfi að ég sé að tíunda það hér hvað hver hefur sagt eða lagt til, hvaða rök einstakir ráðherrar í ríkisstjórninni hafa komið með og hvaða afstöðu þeir hafa tekið til einstakra liða við vinnslu fjárlagafrumvarpsins. Ég held að hv. þingmaður hafi gert sér vel grein fyrir því áður en hann spurði spurningarinnar að það væri engan veginn við hæfi að ég gæfi upp slíkar upplýsingar ef ég hef þá haldið því eitthvað sérstaklega til haga hvað einstakir ráðherrar, hvort sem þeir eru úr mínum flokki eða samstarfsflokknum, hafa haldið fram í þeirri umræðu sem jafnan fer fram þegar unnið er að gerð fjárlaga.