Tekjuskattur

Þriðjudaginn 04. desember 2007, kl. 21:49:36 (2626)


135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tekjuskattur.

290. mál
[21:49]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Nú vill svo bærilega til og ber svo vel í veiði að hér eru viðstödd umræðuna formaður Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar, hæstv. iðnaðarráðherra, og formaður heldri manna eða eldri manna félags Samfylkingarinnar, fyrrverandi forseti ÍSÍ og KSÍ og ýmislegt fleira, hv. þm. Ellert B. Schram. Þannig að hér vantar ekki stórmennin til að standa fyrir svörum.

Hæstv. fjármálaráðherra neitar með öllu, sjálfsagt af tillitssemi við hið brothætta andrúmsloft í ríkisstjórninni, að upplýsa hverju það sæti að barnabætur eigi ekki að hækka verulega nú við afgreiðslu fjárlaga og laga fyrir áramótin, eins og menn hafa gengið út frá miðað við málflutning Samfylkingarinnar. Það á ekki síst við um hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, sem fór hamförum í fyrravetur á síðasta degi þingsins, hneykslaðist á því hvernig fyrri ríkisstjórn hefði skert barnabætur og ekki stóð á fyrirheitunum um að því yrði snarlega kippt í liðinn kæmist Samfylkingin til einhverra áhrifa.

Nú stöndum við frammi fyrir niðurstöðum sem hæstv. fjármálaráðherra staðfesti hér áðan, að það eru ekki áform ríkisstjórnarinnar að flytja aðrar tillögur en þær sem þegar liggja fyrir samkvæmt fjárlögum og þetta frumvarp vísar í eða felur í sér. Barnabætur munu því skerðast að raungildi á næsta ári allverulega, vegna þess að það er notuð sú viðmiðun eða valin sem er óhagstæðari í þessu tilviki og felur í sér aðeins 3,2% hækkun á sama tíma og áætluð 12 mánaða hækkun vísitölu neysluverðs verður 4,8%, hið minnsta samkvæmt spá.

Það er því aldeilis ekki verið að bæta í heldur er nokkuð ljóst að bæturnar koma til með að rýrna. Ég hvet málsvara Samfylkingarinnar til að taka þátt í umræðunni og ég spyr þá: Er þetta gert að tillögu Samfylkingarinnar eða var Samfylkingin ofurliði borin með einhverjar tillögur um að hækka barnabætur en náði þeim ekki fram? Menn geta þá gert það upp við sig hvort þeir vilji taka viljann fyrir verkið eða hneykslast frekar á hinu að Samfylkingin skuli vera svona lin að hún hafi ekkert í gegn. Ég veit að formaður Samfylkingarinnar, hæstv. utanríkisráðherra heyrir mál mitt.

Það getur varla verið svo stórmikilvægur einkafundur sem hún á með hæstv. samgönguráðherra að hún megi ekki verða við því að sinna hér þingskyldu sinni og svara fyrir Samfylkinguna í þessum efnum. Er það niðurstaðan, að skattleysismörkin muni ekki hækka neitt? Jafngrátt og þau hafa verið leikin undanfarin ár halda þau varla í við verðlag. Við þekkjum hvernig skattbyrðin hefur flust til frá hátekju- og meðaltekjufólki yfir á lágtekjufólk og engir hafa nú vitnað oftar í t.d. rannsóknir Stefáns Ólafssonar prófessors en einmitt Samfylkingin, kannski fyrir utan mig. Stefán Ólafsson hefur gert miklar rannsóknir á því hvernig það að halda skattleysismörkunum niðri og láta þau tæplega fylgja verðlagsþróun, hvað þá þróun launa, hefur orðið til þess að mikil skattbyrði hefur verið flutt niður eftir launaskalanum. Þetta er nánast óumdeilt, það er kannski einn maður á Íslandi sem efast um þetta, Hannes Hólmsteinn Gissurarson.

Það á sem sagt ekki að hrófla við því hér og það sem vekur kannski enn meiri furðu er að barnabæturnar eigi að rýrna. Er Samfylkingin sátt við þetta og hefur hún engin áform um að reyna að knýja fram einhverjar breytingar á þessu á þeim dögum sem eftir lifa þingsins fyrir jól? Það væri auðvitað lafhægt því 3. umr. er eftir og ákaflega einfalt að útbúa breytingartillögur um hækkun þessara liða, t.d. barnabótanna, ég get gert það fyrir Samfylkinguna ef það skyldi vefjast fyrir henni í ár. Það hefur ekki gert það undanfarin ár þegar hún var í stjórnarandstöðu. Þá kunni Samfylkingin að semja breytingartillögur um gríðarlega hækkanir á þessum hlutum. En hvar eru þær nú? Eða er þess kannski að vænta að Samfylkingin muni flytja þingmannatillögu til breytinga um hækkun á barnabótum af því hún hafi ekki komið því fram í ríkisstjórninni?

Ég held að Samfylkingin geti ekki kveinkað sér undan því að hún sé spurð út í þessa hluti miðað við málflutning hennar hér á undanförnum þingum. Engin manneskja hefur tekið jafndjúpt í árinni og hneykslast jafnóskaplega á frammistöðu fyrri ríkisstjórnar á þessu sviði og hæstv. núverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir. Það hlýtur að mega ganga eftir því og reyna að fá um það upplýsingar hverju það sæti að menn ætla þá ekki að reynast sjálfum sér samkvæmari en raun ber vitni og hvort ekki einu sinni hafi verið gerð tilraun til þess, t.d. í ríkisstjórn eða í þingflokki Samfylkingarinnar þegar fjárlagafrumvarpið var þar staðfest, að breyta þessu.

Er það virkilega þannig að hver einn og einasti af 18 þingmönnum Samfylkingarinnar samþykkti fyrirvaralaust strax í haust að það yrðu engar hækkanir á skattleysismörkum og að barnabætur mundu rýrna? Er það þannig? Það væri fróðlegt að fá einhverjar upplýsingar um það hér. Ef svo er komið hjá Samfylkingunni að hún ratar ekki lengur í þennan ræðustól eða brestur alveg gjörsamlega kjark til þess að standa fyrir máli sínu þá verður auðvitað við það að búa. En þá segir það líka mikla sögu.