Tekjuskattur

Þriðjudaginn 04. desember 2007, kl. 22:02:15 (2630)


135. löggjafarþing — 36. fundur,  4. des. 2007.

tekjuskattur.

290. mál
[22:02]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir málefnalega umræðu og greinargóð svör við þeim spurningum sem beint er til hans. Hið sama verður ekki sagt um fulltrúa Samfylkingarinnar. Hér í hliðarsal fyrir stundu var formaður þess flokks, hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, og til hennar var beint spurningum og til annarra forsvarsmanna Samfylkingarinnar. Spyrja má hvort pólitískar skylmingar við Samfylkinguna eigi rétt á sér nú og ég vil færa nokkur rök fyrir því.

Ekki er liðið ár síðan umræða fór fram um barnabótakerfið á Íslandi og Samfylkingin lagði reyndar fram frumvarp, eins og ég vísaði til hér áðan, í byrjun þessa árs um gagngerar úrbætur á því sviði. Síðan gerist það rétt fyrir kosningar, gott ef það var ekki á síðasta degi þingsins, að umræða var tekin um barnabæturnar og þá var eftirfarandi sagt — og langar mig til að vitna í núv. hæstv. félagsmálaráðherra eftir að hún hafði farið með þá rullu sem ég vísaði til áðan, um stórfelldar skerðingar á barnabótum í valdatíð Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.

Hæstv. ráðherra segir, með leyfi forseta, og bið ég menn að taka eftir:

„Þetta er auðvitað hrein skömm fyrir ríkisstjórnina og þetta er minnismerki um svik stjórnarflokkanna við barnafjölskyldur, ekki bara í þessu máli heldur varðandi fæðingarorlofsgreiðslur, sem hafa verið verulega skertar á kjörtímabilinu og eru ekki 80% af launum heldur 72–74%. Þetta eru líka svik við fjölskyldur að því leyti að því var heitið hér á þingi árið 1991 í samræmi við þingsályktunartillögu frá Alþingi að heildarstefna yrði mótuð í málefnum barna og unglinga og það hefur verið svikið þrátt fyrir að fyrir lægi vilji Alþingis í samþykktri þingsályktunartillögu að það verði gert. Ríkisstjórnin hefur farið illa með barnafjölskyldur og það verður sannarlega bætt þegar núverandi ríkisstjórn fer frá og við tekur ríkisstjórn okkar jafnaðarmanna.“

Þetta voru orð hæstv. félagsmálaráðherra, Jóhönnu Sigurðardóttur, á síðasta degi þingsins í aðdraganda síðustu þingkosninga. Nú er spurt um efndir. Við stöndum frammi fyrir því að á komandi ári verða barnabætur skertar að raunvirði og það þvert ofan í sverar yfirlýsingar af því tagi sem hér hefur verið vísað til. Ég vek athygli Alþingis og ég vek athygli allra þeirra sem þessa umræðu heyra á því að enginn forsvarsmanna Samfylkingarinnar treystir sér til að koma í ræðustól og svara fyrir stefnu sína og þau svik sem Samfylkingin er hér að verða uppvís að.