Samgöngur til Eyja -- sala eigna á Keflavíkurflugvelli

Miðvikudaginn 05. desember 2007, kl. 13:40:11 (2641)


135. löggjafarþing — 37. fundur,  5. des. 2007.

samgöngur til Eyja – sala eigna á Keflavíkurflugvelli.

[13:40]
Hlusta

Árni Johnsen (S):

Herra forseti. „Sú alvarlega staða er komin upp að allar akstursleiðir til og frá Reykjavík eru lokaðar, a.m.k. í nokkra daga.“ Herra forseti. Ef sú væri raunin yrði uppi fótur og fit í Reykjavík, en sem betur fer er staðan ekki eins og hún var sögð í þessum orðum. Hins vegar er staðreynd að stærsta verstöð landsins er nánast sambandslaus og einangruð með tilliti til samgangna. Herjólfur er í slipp vegna bilunar í nokkra daga og flug er með höppum og glöppum, m.a. vegna þess að ekki er gengið frá samningum um fyrirkomulag Flugumferðarstjórnar á Vestmannaeyjaflugvelli eftir kl. 18.30 á kvöldin, ekki einu sinni gagnvart sjúkraflugi.

Herjólfur er löngu kominn á aldur og bilanir eru mjög tíðar í skipinu, leki í rörum, bilun í hliðarskrúfu, ónýt bílalyfta og þannig mætti halda áfram, auk óþolandi lyktar eins og vill verða í gömlum skipum með alhliða hlutverk. Skipið er sem sagt komið til ára sinna í þessari þjónustu.

Það eru a.m.k. 3–4 ár í nýjan Bakkafjöru-Herjólf samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar sem hefur ekki sama metnað og framsýni í samgöngumálum og frændur okkar Færeyingar sem eru nú að fara af stað með 12 kílómetra göng til Sandeyjar og leggja þau upp eins og að drekka vatn um leið og það mun kosta mun minna en rekstur á siglingaleið.

Við höfum setið uppi, herra forseti, með verkfælni Vegagerðarinnar undanfarin ár í þessum efnum og slæleg vinnubrögð, metnaðarleysi samgönguyfirvalda og Vegagerðar sem er með ólíkindum. (Forseti hringir.) Þetta er mál sem er margfalt verra en Grímseyjarferjan en mun auðvitað koma í ljós þegar öll kurl koma til grafar. Annað skip er nauðsynlegt nú þegar (Forseti hringir.) til að leysa af núverandi Herjólf á leiðinni Vestmannaeyjar – Þorlákshöfn.